Aðeins einu sinni talað við drenginn

Haukur Guðmundsson (t.h.) rannsakaði Geirfinnsmálið á sínum tíma. Hér er …
Haukur Guðmundsson (t.h.) rannsakaði Geirfinnsmálið á sínum tíma. Hér er hann á spjalli við Atla Steinarsson, heitinn, blaðamann. Árni Sæberg

Haukur Guðmundsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem kannaði hvarf Geirfinns Einarssonar í Keflavík á sínum tíma, segir að alltaf hafi verið vitað um Vilhjálm, sem var elskhugi eiginkonu Geirfinns á tíma hvarfsins.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina var sagt frá því að í nýrri heimildarmynd Þjóðverjans Boris Quatram um Geirfinnsmálið sé sett spurningarmerki við það, að umræddur Vilhjálmur hafi „aldrei verið skoðaður sérstaklega og ekki tekin af honum formleg skýrsla.“

Haukur, sem rannsakaði málið á meðan það var enn í höndum embættisins á Suðurnesjum, segir að „drengurinn“, Vilhjálmur, hafi aldrei verið grunaður í málinu frekar en aðrir. „Það var tekin skýrsla og hann var ekki talinn tengjast málinu neitt,“ segir Haukur. „Það var enginn vandi að sækja drenginn ef við vildum tala við hann.“ Vilhjálmur þessi flutti svo úr landi og býr nú í Þýskalandi.

Haukur segist ekki telja að lykillinn að málinu liggi í þessum þræði. „Auðvitað væri samt gaman ef menn gætu upplýst um þetta mál,“ segir hann. „Einhver veit hvað gerðist og ég hef alltaf staðið í þeirri trú að tveir eða fleiri viti það,“ segir hann. Hann segir ekki fráleitt að ímynda sér að einhver kunni að segja frá á dánarbeðnum, þegar fram líða stundir. „Kannski þeir vilji ekki hitta Lykla-Pétur án þess að hafa sagt frá,“ segir Haukur.

Slóðin féll í skuggann af hinum þegar grunuðu 

Ragnar Aðalsteinsson segir að þáttur Vilhjálms hafi ekki verið sérlega mikið rannsakaður. Hann segir í samtali við mbl.is að hann minni að þetta hafi verið talið upplýst og að talað hafi verið manninn aðeins einu sinni.

Ragnar segir aðspurður að lítil rannsókn á aðkomu þessa manns kunni að hafa stafað af því að lögreglan hafi verið of föst í kenningum sínum um hina seku, þannig að þeir hafi gefið sig lítið að öðrum vísbendingum. Slíkt sé þekkt í mörgum rannsóknum. Þannig hafi þessi slóð fallið í skuggann af hinu.

Ragnar segir að nú þegar búið er að sýkna hina ákærðu og dæmdu, geti verið að málið rísi að nýju. Að hans mati kann Vilhjálmur að vera einn af ýmsum þráðum sem voru ekki nægilega rannsakaðir á sínum tíma. Hann kveðst ekki þora að staðhæfa um að rannsaka þurfi þennan tiltekna þátt betur en telur þó líklegt að lögreglan telji rétt, úr því að málið er komið í það horf sem það er núna, að rannsaka aðra anga málsins en voru rannsakaðir á sínum tíma.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður var lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, sem var sýknaður …
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður var lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, sem var sýknaður af áður felldum dómum í Geirfinnsmálinu í Hæstarétti um árið.
mbl.is