Dóttirin fær skólavist í Hamraskóla

Hrönn Sveinsdóttir skrifaði heilbrigðisráðherra opið bréf fyrir helgi þar sem …
Hrönn Sveinsdóttir skrifaði heilbrigðisráðherra opið bréf fyrir helgi þar sem hún lýsir veikindum 11 ára gamallar dóttur sinnar, sem er m.a. með einhverfugreiningu. Stúlkan hefur verið utan skóla þar sem skólinn treystir sér ekki til að hafa hana. Borgaryfirvöld brugðust við og hefur stúlkunni verið boðin skólavist í Hamraskóla þar sem starfrækt er sérdeild fyrir einhverfa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar ég skrifaði þetta bréf leit út fyrir að hún fengi enga kennslu og yrði hvergi í skóla, staðan var rosalega óljós. Um leið og bréfið birtist heyrði ég frá borginni,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, í samtali við mbl.is.

Hrönn skrifaði Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra opið bréf sem birtist í Fréttablaðinu á föstudag þar sem hún lýsir veik­ind­um ell­efu ára dótt­ur sinn­ar, sem er með einhverfugreiningu, og glímu fjöl­skyld­unn­ar við að fá þá þjón­ustu og aðstoð sem hún þarfn­ast vegna veik­inda sinna. Stúlk­an geng­ur ekki leng­ur í skóla, þarf að bíða vik­um sam­an eft­ir fundi á barna- og ung­linga­geðdeild og for­eldr­arn­ir „vin­sam­leg­ast beðnir um að geyma“ hana heima þangað til því önn­ur úrræði eru ekki í boði.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, settu sig í samband við Hrönn og fjölskyldu á föstudag. „Þeim fannst þetta ótækt og að það gæti ekki staðist lög að barn væri látið bíða heima svo að þau fóru á fullt að finna úrræði,“ segir Hrönn.

Borgaryfirvöld ræddu við skólastjórnendur í Vesturbæjarskóla, þar sem dóttir Hrannar hefur stundað nám, og farteymi borgarinnar, sem sjá um úrræði fyrir nemendur með alvarlegan fjölþættan vanda í grunnskólum. Niðurstaðan varð sú að veita stúlkunni skólavist í Hamraskóla frá og með 6. maí. Í skólanum er starfrækt sérdeild fyrir einhverfa sem ætluð er börnum með einhverfugreiningu.

Léttir, en fjölda spurninga enn ósvarað

Hrönn segir það vissan létti að lausn sé í sjónmáli, það eigi hins vegar eftir að skýrast betur hvað felst í skólavistinni og hvort hún henti dóttur Hrannar. „Auðvitað er það léttir að hugsa með sér: Ókei, þá erum við ekki utanveltu utan skóla til sumarfrís. Mér finnst skipta svo miklu máli að hún sé í daglegu starfi, mér finnst hræðilegt að hún sé heima að dingla sér í margar vikur og fara svo í sumarfrí, það er svo vont fyrir manneskju eins og hana, sem verður óvirk svo hratt, þá er svo ógeðslega erfitt að fá hana til að gera eitthvað, hún fer ekki út að hitta vini eða í einhverjar tómstundir.“

Dóttir Hrannar er einnig á biðlista í Brúarskóla, sérskóla sem er rekinn af borginni fyrir nemendur í 5. - 10. bekk sem eiga við alvarlegan geðrænan og tilfinningalegan vanda að etja, eiga í félags- og hegðunarerfiðleikum eða eru komnir í vanda vegna fíkniefnaneyslu eða afbrota. „En mér er sagt að það sé langsótt og muni ekki gerast á næstunni.“

Ár er síðan Hrönn og fjölskyldu var vísað á barna- …
Ár er síðan Hrönn og fjölskyldu var vísað á barna- og unglingageðdeild Landspítala en vandinn hefur hins vegar aukist síðasta árið. „Þegar full­trú­ar skóla og BUGL hitt­ust fyr­ir um mánuði, gjör­sam­lega ráðþrota, var talað um ein­hverf­uráðgjafa. En það er eng­inn ein­hverf­uráðgjafi á BUGL,“ skrifaði Hrönn m.a. í bréfinu sem hún sendi heilbrigðisráðherra. mbl.is/Hari

„Nógu erfitt að finnast maður vera misheppnaðasta foreldri í heimi“

Frá því að Hrönn birti bréfið hefur hún fengið fjölmörg viðbrögð, ekki bara frá ráðherra, sem segist vera að skoða málið, heldur einnig frá foreldrum sem eru í svipaðri stöðu. „Það er fullt af fólki sem hefur neyðst til að vera með börnin sín utan skóla því þau passa hvergi inn,“ segir hún.  

Hrönn segir kerfið afar flókið og að erfitt sé að hafa yfirsýn yfir þau úrræði sem eru í boði. „Þetta er allt svo flókið og erfitt, ég held að það sem sameinar langflesta er að þau vantar einhvern til að tala við, fólk upplifir sig svo eitt og einmana í þessu, það er alveg nógu erfitt að finnast maður vera misheppnaðasta foreldri í heimi og eiga barn sem fólk heldur að sé bara dónalegt og illa upp alið og vera á sama tíma í þeirri stöðu að þú veist ekki hvert þú átt að setja barnið, það passar ekkert utan um barnið þitt.“

Hrönn segir að hún upplifi það stundum svo að hún sé föst í forræðisdeilu milli ríkisins og borgarinnar. „Og maður segir bara hjálp.“

Nú er hins vegar útlit fyrir að ákveðin lausn sé í sjónmáli fyrir dóttur Hrannar og fyrir það er hún þakklát, þótt það eigi eftir að koma í ljós hvernig skólavistin í Hamraskóla gangi. Hrönn er sömuleiðis þakklát fyrir þau viðbrögð sem hún hefur fengið við bréfinu. „Það hefur verið rosalega fróðlegt og æðislegt að upplifa hvað fólk getur verið frábært því allir hafa verið hjálplegir og komið með nytsamlegar ábendingar og ráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert