Sýnin breytti lífi mínu

„Mér fannst hljóta að vera einhver æðri tilgangur með lífinu. …
„Mér fannst hljóta að vera einhver æðri tilgangur með lífinu. Ég var virkilega að leita og ég fann svör og mér var veitt sýn. Mér var sýnt þetta á þennan hátt svo ég yrði sátt,“ segir Hrafnhildur sem sá fallega sýn undir handleiðslu heilara. mbl.is/Ásdís

Það er notalegt um að litast á heimili Hrafnhildar Sigurðardóttur á Arnarnesinu. Þar býr hún ásamt manni sínum, fimm börnum og hundi. Við setjumst inn í stofuna með kaffi í bollum og horfum út á hafið á meðan við spjöllum. Hrafnhildur hefur áorkað miklu í lífinu og er bæði kennaramenntuð og menntuð í klassískum söng. Hún lét sér það ekki nægja heldur lærði að verða pílateskennari og síðar jógakennari.

Nú á hún og rekur fyrirtækið Hugarfrelsi sem sér til þess að skólabörnin okkar kynnist aðferðum til að róa hugann og efla jákvæða sjálfsmynd. Allt sitt líf hefur hún miðlað og gefið af sér til þess að hjálpa öðrum að öðlast betra líf, bæði andlega og líkamlega. Í seinni tíð hefur hið andlega verið áberandi í lífi Hrafnhildar en sýn sem hún sá fyrir níu árum breytti henni fyrir lífstíð.

Hver er tilgangur lífsins?

„Ég skráði mig í jógakennaranám, aðallega til að læra góðar teygjuæfingar. En þar opnaðist alveg nýr heimur og ég fór að skilja ýmislegt betur. Í jógaheimspeki er talað um alheimsorku, eða ljós, kærleika og visku sem er að verki. Þetta hjálpaði mér til að skilja betur að trúarbrögð eru ekki annað en mismunandi leiðir manna að sama kjarnanum. Fram að þeim tíma hafði ég ekki mikið verið að velta trúmálum fyrir mér. Það kom eitthvert „aha-móment“ í gegnum jógaheimspekina sem leiddi mig af stað í nýja andlega vegferð.“

Hrafnhildur segir að í kjölfarið hafi hún farið að leita að svörum við spurningum eins og: „Hver er ég, hvert er mitt hlutverk, hver er tilgangur lífsins?“ Hana þyrsti í svör og í þeim tilgangi sökkti hún sér í bækur um andleg málefni og fór hún m.a. til miðla til að leita svara.

Gekk í átt að ljósinu

„Ég fór til miðils 2010 og sagði honum að mig dreymdi oft sérstaka drauma og að ég héldi að ég væri dálítið næm. Hann svaraði: „Við skulum sjá hvað þeir segja.“ Svo lagðist ég á bekk, en hann er líka heilari, og hann lét hendurnar á iljarnar á mér. Hann leiddi mig í gegnum mjög djúpa heilun eða dáleiðslu. Ég fór að sjá sýnir. Það sem hafði mest áhrif á mig var að ég sá dimm göng en það var birta við endann. Hann segir mér að ganga í gegnum göngin, sem ég og geri, og mér finnst eins og það séu hendur sem leiða mig áleiðis. Svo þegar ég kem í ljósið birtist fallegasta sýn sem ég hef séð. Þar var grænt gras og tær blár himinn, allt svo friðsælt og kærleiksríkt. Ég get ekki lýst þessu með venjulegum orðum. Tilfinningin var svo yfirþyrmandi og ljósið svo bjart að ég hugsaði með mér að ég væri komin til himna. Þetta væri það sem fólk væri að tala um sem hefur dáið en snúið aftur og sagt frá þeirri reynslu,“ segir Hrafnhildur.

Að þjálfa ímyndunaraflið

Fyrir um fimm árum stofnaði Hrafnhildur ásamt vinkonu sinni Unni Örnu Jónsdóttur fyrirtækið Hugarfrelsi. „Fyrst bjuggum við til heilræðaspjöld og síðan bjuggum við til námskeið fyrir börn. Þetta hefur vaxið mikið síðan. Núna erum við í tíu sveitarfélögum með námskeið og kennarar á okkar vegum eru víða. Svo erum við að innleiða í leikskóla og grunnskóla öndun, slökun, hugleiðslu, jóga og sjálfsstyrkingu. Við kennum fagfólki að nota aðferðirnar með nemendum. Við leggjum mikla áherslu á að kenna þeim djúpa öndun sem er fyrst og fremst notuð til þess að róa hugann og tengjast sjálfum sér. Við kennum þeim að veita góðum og uppbyggilegum hugsunum athygli og þá eru meiri líkur á því að börnunum líði betur og fari í kjölfarið að hegða sér betur. Það er nauðsynlegt að við lærum betur á huga okkar,“ segir hún. 

„Svo notum við slökunaræfingar og hugleiðslusögur. Þar erum við að þjálfa ímyndunaraflið, því þegar krakkar eru mikið í tölvum og símum þá dregur verulega úr ímyndunaraflinu. Þetta er svo mikilvægt því öll ímyndun er sköpun,“ segir Hrafnhildur, en hún hefur alls skrifað sjö bækur.

Hrafnhildur og Arnar Þór eiga fimm börn. Kári Þór er …
Hrafnhildur og Arnar Þór eiga fimm börn. Kári Þór er elstur, fæddur 1997, Óttar Egill er fæddur 2001, Ásdís árið 2004, Theodór Snorri 2007 og Sigrún Linda árið 2012. Ljósmynd/Tinna Stefánsdóttir


Ekki bölva vekjaraklukkunni

Í gegnum alla reynslu sem Hrafnhildur hefur gengið í gegnum er hún orðin viss um að þetta sé ekki okkar eina líf, lífið hér á jörðinni.

„Ég trúi því að sálin sé eilíf og hef ég fengið að sjá mörg fyrri líf í gegnum hugleiðslur. Inntak kristinnar trúar talar sterkt til mín. Jesús var skapaður í Guðs mynd eins og við öll.

Boðskapurinn gengur út á að opna augu okkar fyrir kærleikanum og hjálpa öðrum. Jesús er frábær fyrirmynd og sannkallaður leiðtogi,“ segir hún.

„Við gleymum oft að við erum öll í sama liði og þurfum að stíga inn í kærleikann og hjálpsemina og vera þakklát. Við hjá Hugarfrelsi tölum um það að fólk eigi að byrja daginn á jákvæðri hugsun. Þegar vekjaraklukkan hringir eigum við ekki að bölva henni heldur að þakka fyrir að geta farið á fætur. Á kvöldin ættum við að venja okkur á að þakka fyrir hvað dagurinn hefur fært okkur,“ segir hún.

Ertu með vissu fyrir því að það sé líf eftir þetta líf?

„Já, ég veit það. Annar og betri heimur sem hægt er að tengjast á einfaldan hátt. “
Þannig að þú ert ekki hrædd við dauðann?

„Nei, hann er ekki til, dauðinn er einungis umbreyting því sálin er ódauðleg.“

Viðtalið í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »