Senda F-35 til Íslands

Bandarísk orrustuþota af gerðinni F-35.
Bandarísk orrustuþota af gerðinni F-35. Ljósmynd/Wikipedia.org

Vorið 2020 munu norskar orrustuþotur af gerðinni F-35 sinna loftrýmisgæslu við Ísland, en þetta verður í fyrsta sinn sem norskar þotur af þeirri gerð sinna verkefni utan landamæra Noregs. Þetta kemur fram á fréttavef norska dagblaðsins Verdens Gang.

Haft er eftir Haakon Bruun-Hanssen, flotaforingja og æðsta yfirmanni norska hersins, að loftrýmisgæslan muni standa yfir í 3-4 vikur. Yfirleitt sé gert ráð fyrir að þrjár orrustuþotur þurfi að vera til taks í slíkum verkefnum en síðan sé spurningin hversu margar þurfi að senda til þess að tryggja að alltaf sé hægt að senda þrjár þotur á loft.

Bruun-Hanssen segir það vera norska flughersins að taka endanlega ákvörðun um það nákvæmlega hversu margar orrustuþotur verði sendar til Íslands. Norðmenn hafa sinnt loftrýmisgæslu við Ísland fjórum sinnum til þessa; 2009, 2011, 2014 og 2016.

Ríkisstjórn Noregs hefur samið um kaup á 52 nýjum F-35-orrustuþotum sem koma eiga í stað F-16-orrustuþota norska flughersins. Níu hafa til þessa verið afhentar.

mbl.is