„Því miður ekki skets frá Fóstbræðrum“

Grensáskirkja.
Grensáskirkja.

„Ég get ekki orða bundist vegna framgöngu bæði prestsins og lögmanns hans undanfarna daga,“ segir Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður kvennanna fimm sem báru sakir á Ólaf Jóhannsson, sóknarprest í Grensáskirkju, um kynferðislega og kynbundna áreitni.

Þyrí birtir pistil á Facebook-síðu sinn í dag vegna ummæla Einars Gauts Steingrímssonar, lögmanns Ólafs, á mbl.is í gær. Þar sagði hann meðal annars að hann hefði aldrei séð eins mikla valdníðslu í nokkru máli á sínum 30 ára lögmannsferli og í þessu máli Ólafs.

„Þessar konur sem ég vann fyrir voru hugrakkar og sterkar. Þær stigu fram og sögðu frá ósiðlegri og ósæmilegri háttsemi prestsins í sinn garð og mættu gríðarlegri andspyrnu, bæði innan kirkjunnar og utan hennar. Háttsemin sem konurnar lýstu var að mínu mati hægt að heimfæra undir lagalegar skilgreiningar á kynferðislegri áreitni og kynbundnu áreitni. Þær skilgreiningar er að finna í jafnréttislögum,” segir Þyrí, sem segir jafnframt að Einar fari með rangt mál þegar hann fullyrðir að áfrýjunarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um siðabrot að ræða.

„Í tveimur málum komst Úrskurðarnefndin að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að presturinn hefði gerst sekur um siðferðisbrot í skilningi þjóðkirkjulaga með háttsemi sinni.Þeirri niðurstöðu áfrýjaði presturinn til Áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar sem staðfesti niðurstöðu Úrskurðarnefndarinnar,“ segir Þyrí.

„Hann er að finna fyrir afleiðingum gjörða sinna“

Hún vísar jafnframt í rökstuðning úrskurðarnefndarinnar þar sem sagði meðal annars að sóknarpresturinn „sé kunnur af galsa og að vera jafnvel frakkur að eðlisfari. […]Það getur ekki farið á milli mála að faðmlög og kossar þar sem viðkomandi er lyft upp er á engan hátt venjuleg eða viðurkennd háttsemi á milli fólks við þær aðstæður sem greinir í máli þessu.“

Þyrí Steingrímsdóttir.
Þyrí Steingrímsdóttir.

Hún segir að framganga sóknarprestsins og lögmanns hans undanfarna daga um að hann sé alsaklaus og hafi verið sýknaður af öllum ásökunum, og eigi því rétt á því að sinna sínu embætti eins og ekkert hafi í skorist, neyði hana til þess að leggja orð í belg.

„Ekkert af þessu er rétt. Presturinn var fundinn sekur um siðferðisbrot, sem er alvarlegt og ámælisvert. Hann er talinn hafa brotið gegn skrifuðum og óskrifuðum siðareglum með framkomu sinni í garð kvenna sem hann starfaði með á vettvangi kirkjunnar, m.a. siðareglum vígðra þjóna kirkjunnar. Það er því ekki af „einhverjum ástæðum“ verið að meina honum að sinna starfi sínu.“

„Hann er að finna fyrir afleiðingum gjörða sinna sem hvorki hann né lögmaður hans virðast geta horfst í augu við. Þeir skilja ekkert í þessum látum, maðurinn er nú bara „kunnur af galsa“ og „frakkur að eðlisfari“ en konurnar fimm að sama skapi húmorslausar og leiðinlegar. Þetta er því miður ekki skets frá Fóstbræðrum, þetta eru raunverulegar málsástæður prestsins hjá bæði Úrskurðarnefnd og Áfrýjunarnefnd.“

Sérstaklega alvarlegt sem vígður prestur

Þyrí líkur pistli sínum á því að hún vonist til þess að ákvörðun biskups um að veita honum lausn úr embætti takist.

„Að koma fram við konur á þann veg sem presturinn gerði er ekki í lagi, það er ekki leyfilegt og það er ólöglegt. Það er líka sérstaklega alvarlegt ef þú ert vígður prestur og kallast þá siðferðisbrot. Af þeim ástæðum vill biskup veita honum lausn úr embætti. Ég vona að það takist.“

Pistil Þyríar má finna í heild hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert