Slasaðir Kínverjar á þrjú sjúkrahús

Landhelgisgæslan hefur notast við þyrlu og flugvél til þess að …
Landhelgisgæslan hefur notast við þyrlu og flugvél til þess að flytja slasaða. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðamennirnir sem voru í rútunni sem fór út af á Suðurlandsvegi og valt við Hofgarða, skammt norðan við Fagurhólsmýri, eru allt kínverskir ferðamenn. Þeim verður dreift á þrjú sjúkrahús landsins til þess að dreifa álagi.

Þetta staðfestir Grímur Hergeirsson, starfandi lögreglustjóri á Suðurlandi, við mbl.is. Fjórir sem metnir voru alvarlegast slasaðir eru komnir á Landspítalann eftir að hafa verið fluttir þangað með þyrlu. Alls voru 33 einstaklingar í rútunni.

Sjúkraflugvél Norlandair og flugvél Landhelgisgæslunnar mun flytja hluta af þeim sem minna eru slasaðir á Sjúkrahúsið á Akureyri og aðrir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Grímur hefur ekki upplýsingar um aldur kínversku ferðamannanna, en enn er verið að flytja fólk af vettvangi. Allir, slasaðir sem óslasaðir, verða fluttir til skoðunar og aðhlynningar.

Raðir hafa myndast á Suðurlandsvegi við slysstað, en enginn hjáleið er á þessum stað. Grímur reiknar með að fljótt verði leyst úr því þegar umferð verður hleypt í gegn, en rannsókn á tildrögum slyssins eru hafin.

Þá bauðst einnig aðstoð frá dönsku herskipti sem var við höfn í Reykjavík og kom þyrla af skipinu á slysstað.

mbl.is

Uppfært kl. 18.57:

Búið er að opna Suðurlandsveg í báðar áttir, lögreglan og viðbragðsaðilar þakka vegfarendum þolinmæðina og skilninginn.

Uppfært kl. 19.32

Landspítali hefur verið tekinn af gulu viðbúnaðarstigi vegna rútuslyssins.

„Vegna mikils álags sem viðbúnaðarstig hefur í för með sér biður Landspítali fólk með minniháttar áverka eða veikindi þó áfram um sinn að leita frekar til heilsugæslu eða Læknavaktar frekar en bráðadeildar í Fossvogi ef kostur er. Þetta atvik kemur ofan í þunga stöðu og umtalsverðan flæðisvanda, sem Landspítali glímir við í augnablikinu.

Nánari upplýsingar frá Landspítala, sem tengjast þessu slysi, verða gefnar næst kl. 10:00 í fyrramálið, föstudaginn 17. maí,“ segir í tilkynningu frá Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert