Eineggja tvíburar dúx og semídúx

Steinunn Bára Birgisdóttir til vinstri er dúx með 9,77 í …
Steinunn Bára Birgisdóttir til vinstri er dúx með 9,77 í meðaleinkunn og systir hennar Birgitta Þóra Birgisdóttir, til hægri, er semídúx með 9,71. Ljósmynd/Hulda Stefánsdóttir

Við útskrift í Flensborgarskólann á fimmtudaginn reyndust dúx og semídúx vera tvíburasystur. Þær eru á sömu námsbraut, í sömu íþrótt og líta eins út. Þær gera allt saman.

Þær eru úr Hafnarfirðinum og heita Steinunn Bára Birgisdóttir og Birgitta Þóra Birgisdóttir. Steinunn er dúx Flensborgarskólans í ár með 9,77 í meðaleinkunn og Birgitta Þóra er semídúx með 9,71. Þær útskrifuðust báðar á þremur árum af raunvísindabraut á íþróttaafrekssviði.

Magnús Fannar Magnússon nokkur var einnig með 9,7 í meðaleinkunn og deildi því semídúxtitlinum með Birgittu Þóru.

Aðeins 0,06 munaði á meðaleinkunnum systranna. Og þær þvertaka fyrir að hafa verið í samkeppni um hæstu einkunn. „Við erum eiginlega bara rosalega jafnar í öllu,“ segja þær í samtali við mbl.is um árangurinn. 

Þær eru þannig ekki aðeins afreksnámsmenn heldur afreksíþróttamenn á sama tíma. Þær æfa báðar frjálsar íþróttir með FH.

Stúlkurnar ásamt foreldrum sínum, Birgi Magnússyni og Huldu Stefánsdóttur.
Stúlkurnar ásamt foreldrum sínum, Birgi Magnússyni og Huldu Stefánsdóttur. Ljósmynd/Hulda Stefánsdóttir

Systurnar eru glaðar að heyra. „Við erum mjög ánægðar með þetta,“ segja þær. Spurðar hvort þetta hljóti ekki að hafa endað í smá samkeppni um hæstu einkunnina undir lokin, segja þær ekki hafa verið svo. „Alls ekki, við erum bara mjög samtaka,“ segja þær. 

Systurnar náðu þessum merka áfanga með samvinnu. Þær læra alltaf saman heima í stofu, segja þær. „Við lærum alltaf saman. Það hefur virkað vel fyrir okkur,“ segja þær. Lærdómsaðferðinar segja þær að séu mjög klassískar, bara lesa vel og hlýða hvor annarri yfir.

Framtíðin björt

Þær segjast vera hvað sterkastar í raunvísindum eins og stærðfræði eða líffræði. Þegar þær fara í háskóla segjast þær báðar hafa áhuga á annaðhvort heilbrigðis- eða menntavísindum en ekkert liggi fyrir um hvert nákvæmlega skal haldið. Líklegt er þó að þær fari áfram sömu leið, eins og hingað til. Og árangurinn, hlýtur hann ekki að verða sá sami? „Ætli maður reyni ekki að fylgja þessu eftir,“ segja systurnar glaðar í bragði.

Þær eru komnar í sumarfríi og þær verða ekki síður samferða í sumar en áður. Þær eru báðar að fara að vinna hjá Draumagörðum ehf. við garðyrkju ásamt því að mæta dyggilega á æfingar í frjálsum. Eftir sumarið hyggjast þær taka sér pásu frá námi. „Við ætlum að taka okkur eitt ár í pásu til að vinna og ferðast,“ segja þær.

„Við söfnum okkur pening fyrir áramót og ætlum svo í heimsreisu í þrjá mánuði,“ segja þær. Sú heimsreisa muni felast til dæmis í ferðalagi um Asíu. Þangað til þær fara út munu þær vinna myrkranna á milli til að safna sér pening en um sinn er óljós hver haustvinnan verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert