Hringdi í lögreglu í fjóra tíma

Mehamn. Kærasta Gísla Þórs heitins hringdi í lögreglu í fjórar …
Mehamn. Kærasta Gísla Þórs heitins hringdi í lögreglu í fjórar klukkustundir, áður en svarað var, eftir símtal frá hálfbróður hans sem áður hafði sent fjölda SMS-skeyta með hótunum.

„Við höfum bent á það áður að við upplifum hér samfélag með meira ofbeldi og meiri fíkniefnaneyslu en áður. Þetta mál snýr að ofbeldi í garð náinna venslamanna og þarna var fólk búið að biðja um vernd sem það ekki fékk.“ Þetta segir Trond Einar Olaussen, bæjarstjóri í Gamvik í Finnmörku, og liggur lögreglu þar í fylkinu á hálsi að hafa ekki brugðist við margbrotnu nálgunarbanni Gunnars Jóhanns Gunnarssonar í garð hálfbróður síns, Gísla Þórs Þórarinssonar heitins, sem hinn fyrrnefndi er grunaður um að hafa skotið til bana aðfaranótt 27. apríl.

Það er norska ríkisútvarpið NRK sem greinir frá þessu og enn fremur því að Gunnar Jóhann hafi marghótað hvort tveggja hálfbróður sínum og kærustu hans lífláti, en NRK greinir frá því að hún hafi átt í sambandi við Gunnar áður en samband hennar við Gísla heitinn hófst.

Kærastan segir við NRK að hótanir Gunnars hafi beinst jafnt að henni sem hálfbróður hans og hafi Gunnar meðal annars sent ógnandi SMS-skeyti þar sem hann hafði í hótunum auk þess sem hann hafi lamið allt hús hennar að utan.

Hótaði berum orðum að myrða hálfbróður sinn

Segir kærastan að Gunnar hafi berum orðum sagt að hann hygðist ráða hálfbróður sinn af dögum, en Gunnar sætti nálgunarbanni gagnvart þeim báðum frá 17. apríl. SMS-skeytin teljast brot gagnvart því banni.

Tveimur dögum fyrir víg Gísla Þórs hringdi Gunnar í kærustu hans og gerði hana alvarlega skelkaða. Hún reyndi þá árangurslaust að ná sambandi við lögreglu í fjórar klukkustundir áður en svarað var.

Anja Mikkelsen Indbjør saksóknari í Finnmörku segir við NRK að lögregla hafi talið víst að Gunnar Jóhann hafi ekki verið staddur í Mehamn þegar hann hringdi og enn fremur að lögregla hafi ekki haft ástæðu til að ætla að Gunnar hefði aðgang að skotvopni, en hvort tveggja mbl.is og norski vefmiðillinn iFinnmark hafa fengið það staðfest að lögreglu hafði verið greint frá staðfestum grun þess efnis að Gunnar hefði slíkan aðgang. Einnig hefur mbl.is fengið að heyra að skotvopn hafi horfið úr báti í Mehamn fyrr í vetur en hefur ekki fengið þær fregnir staðfestar.

NRK ræðir einnig við afbrotafræðinginn Jane Dullum sem rannsakað hefur og gefið út skýrslu um eftirfylgni lögreglu í nálgunarbannsmálum í Noregi. „Það er nánast tilviljun að lögregla bregðist við brotum gegn nálgunarbönnum og viðbrögðin eru mjög mismunandi eftir landshlutum,“ segir Dullum. „Mjög mikið virðist þurfa til að lögregla bregðist við tilkynningum um slík brot, nú stendur yfir vinna við að endurskipuleggja norsk lögregluembætti og það getur auðvitað haft áhrif hér,“ segir hún enn fremur.

NRK rifjar upp Kirkenes-drápin svokölluðu í Finnmörku sumarið 2016 þegar tæplega sextugur maður skaut taílenska konu sína og tólf ára gamlan son hennar til bana með haglabyssu sem skráð var hjá honum, en lögregla hafi þó ekkert aðhafst til að svipta manninn vopninu þrátt fyrir að kona hans hafi margleitað til lögreglunnar vegna viðsjárverðs háttalags manns hennar í garð þeirra barnsins.

Olaussen bæjarstjóri biðlar nú til lögregluyfirvalda að koma upp fastri lögregluvarðstofu í Gamvik en þaðan er stutt til Mehamn. Gísla Þór blæddi út nóttina í apríl á meðan sjúkraflutningamenn biðu í bíl sínum fyrir utan þar sem lögregla þurfti að aka alla leið frá Kjøllefjord til að tryggja vettvang áður en sjúkraflutningamennirnir gátu farið inn í hús Gísla, 40 mínútna aksturleið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert