„Ég hef fulla trú á framtíðinni“

Skrifað var und­ir stofn­un sam­starfs­vett­vangs stjórn­valda og fjölda stórra aðila …
Skrifað var und­ir stofn­un sam­starfs­vett­vangs stjórn­valda og fjölda stórra aðila í at­vinnu­líf­inu um sam­starf í lofts­lags­mál­um í dag. mbl.is/Eggert

Á nýjum samstarfsvettvangi stjórnvalda og fyrirtækja, og hagsmunasamtaka, verður unnið að því að sameina krafta til þess að vinna gegn loftslagsvánni. Einnig verður vettvangurinn nýttur til þess að kynna íslenska starfsemi að þessu lútandi erlendis.

„Hugsunin er að byggja upp samstarfsvettvang til næstu ára til þess að efla annars vegar útflutning orkuþekkingar á Íslandi og segja söguna um hvað hefur verið gert vel hér á undanförnum árum og hins vegar líka að vekja athygli á og vinna gegn þeirri loftslagsvá sem við erum að glíma við. Við höfum skuldbundið okkur til að vera kolefnishlutlaust land 2040,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is við tilefnið. Þetta var undirritað í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.

Verða vonir um að fyrirtæki hefji að færa fórnir fyrir málstaðinn raunhæfari með tilkomu nýs samstarfsvettvangs?

„Ég vil ekki endilega nota orðin fórnir eða boð og bönn. Ég vil mun frekar nota orðin samstarf og tækifæri til framtíðar. Það er alveg ljóst að innan vébanda okkar er vilji fyrirtækja til að stíga stór skref í þessa átt,“ segir Halldór Benjamín. „Til dæmis með mótvægisaðgerðum, eins og skógrækt og öðru slíku,“ segir hann.

Halldór Benjamín segir stórt skref stigið í rétta átt í dag, blönduð lausn af mótvægisaðgerðum og tækninýjungum.

Þú hefur trú á þessu?

„Ég hef fulla trú á framtíðinni,“ segir hann.

Árangur í loftslagsmálum en samt hagvöxtur

Samtök iðnaðarins leika stórt hlutverk í nýjum samstarfsvettvangi og fulltrúi þeirra hélt ræðu á fundinum í dag.

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði tækifæri felast í útflutningi …
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði tækifæri felast í útflutningi íslenskrar þekkingar á umhverfislausnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Atvinnulífið styður markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Það verður auðvitað heilmikil áskorun en ég deili sannfæringu forsætisráðherra um að okkur mun takast það,“ sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri samtakanna, í ræðu sinni.

Sigurður sagði snúið að halda hagvexti gangandi en samt grípa til aðgerða í loftslagsmálum. „Það sem er auðvitað áhugavert hjá okkur er að við höfum náð þessum árangri ásamt því að vera hér með góðan hagvöxt en það er einmitt stóra glíman fram víð, sér í lagi í öðrum löndum,“ sagði Sigurður.

„Samstarf allra aðila er nauðsynlegt til að ná árangri,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert