Hleðslustöðvar við hótel eins og WiFi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynntu í dag aðgerðir sem eiga að stuðla að orkuskiptum í samgöngumálum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin boðar aðgerðir sem eiga að stuðla að orkuskiptum í samgöngumálum. Innviðir til að hlaða rafbíla um allt land verða margefldir. Nýstárlegar hleðslustöðvar verða samkvæmt nýrri áætlun byggðar um allt land, við þjóðvegi og við gististaði á landsbyggðinni.

Rafbílum fjölgar hratt hér á landi og Ísland er nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar hlutfall rafbíla af fjölda nýskráðra bifreiða. Þriðjungur þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda kemur frá vegasamgöngum. 

Tilkynnt var á blaðamannafundi í dag um ráðstöfun 450 milljóna króna vegna orkuskipta í samgöngum á árunum 2019-2020 en samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að verja 1,5 milljarði króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.

Ísland er í 2. sæti í heiminum hvað snertir hlutfall …
Ísland er í 2. sæti í heiminum hvað snertir hlutfall rafbíla í heildarfjölda nýskráðra bifreiða. AFP

Hundruðum milljóna varið í verkefnið

200 milljónum verður varið í uppbyggingu hraðhleðslustöðva við „lykilstaði við þjóðvegi landsins“. Þar verður tekið við umsóknum um að byggja slíkt upp. Til þess að greiða fyrir umferð rafbíla um landið verður lögð áhersla á næstu kynslóð hleðslustöðva sem bjóða upp á mun styttri hleðslutíma en núverandi stöðvar gera.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, fjallaði um hraðhleðslustöðvarnar við þjóðveginn.  „Ég heyrði í gær að WOW air 2.0 væri á leiðinni. Þá er þetta rafbílavæðing 2.0,“ sagði hann. Þannig stöðvar verði þannig að fólk geti fengið sér pylsu eða kaffibolla á meðan bíllinn væri hlaðinn, svo hratt hlaðist bíllinn.

Drægnin á að verða töluvert meiri en hún er núna á milli staða. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bílahleðsla eins og WiFi

Í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar geta gististaðir og hótel um allt land einnig sótt um styrk í Orkusjóð til að byggja hefðbundnar hleðslustöðvar. „Það er engin pressa en það er rosa pressa að þessi hluti markaðarins taki þátt í þessu með okkur,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferða- og nýsköpunarráðherra, í ávarpi sínu á blaðamannafundinum.

50 milljónir verða fáanlegar í þennan lið aðgerðanna og einnig er gert ráð fyrir mótframlagi umsækjenda, þannig að heildarupphæð sem fer í þennan málaflokk verði 100 milljónir. Gert er ráð fyrir að hleðslustöðvum við gististaði fjölgi um allt að 500 vegna þessa. 

„Hleðslustöðvar við gististaði eiga að þróast eins og WiFi á árum áður,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Fyrst var það bónus en nú er það sjálfsagt mál,“ sagði hún.

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frekari verkefni framundan

Félagsmálaráðuneytið vinnur þá að tillögu að breytingu á lögum um fjöleignarhús og eiga ný lög að liðka fyrir rafbílavæðingu á þeim vettvangi.

Eftir standa 200 milljónir af þessari ráðstöfun en þeim verður „varið til margvíslegra verkefna í orkuskiptum á árinu 2020, byggt á frekari greiningum“, segir á vef umhverfisráðuneytisins. Þetta fé er geymt til þess að nýta það í þær tæknilausnir sem eru handan við hornið. Það verður notað sennilega strax á næsta ári, að sögn umhverfisráðherra. 

„Verkefni í orkuskiptum eru talin geta losað okkur við 250.000 tonn í kolefni. Það er fjórðungur þess sem stjórnvöld þurfa að bera ábyrgð á til að uppfylla skuldbindingar okkar,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Ísland er nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar hlutfall rafbíla af fjölda nýskráðra bifreiða. „Við erum í öðru sæti. Þetta er eitthvað sem á að hraða og flýta þeirri þróun sem þegar er byrjuð,“ sagði hann. „Fjármagnið sem við setjum inn á að geta tvöfaldast með mótframlögum,“ sagði hann. Þannig sé kominn um milljarður í verkefnið.

Frá blaðamannafundi þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem kynnt voru næstu …
Frá blaðamannafundi þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem kynnt voru næstu skref varðandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs og starfshóps sem umhverfis- og …
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs og starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipuðu í byrjun árs og var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi, í samræmi við aðgerðaáætlanir um loftslagsmál og orkuskipti. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is