Með aukavakt vegna óvissuástands

Lög­regl­an á Vest­ur­landi vinn­ur hér að því að slökkva sinu­elda. …
Lög­regl­an á Vest­ur­landi vinn­ur hér að því að slökkva sinu­elda. Mynd úr safni. mbl.is/Lögreglan á Vesturlandi

„Það verður sett á aukabakvakt hjá slökkviliðinu nú um helgina. Síðan erum við að bregðast við þessu ástandi með því að halda stóra sameiginlega æfingu með öllum fjórum starfsstöðvum slökkviliðs Borgarbyggðar,“ segir Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri slökkviliðs Borgarbyggðar, í samtali við mbl.is.

Al­manna­varn­ir tilkynntu á þriðjudag að óvissu­stigi hefði verið lýst yfir á Vest­ur­landi vegna langvar­andi þurrka og þá hef­ur viðbragðsáætl­un vegna gróðurelda í Skorra­dal verið virkjuð. 

Slökkvistöðvar í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst munu taka þátt í æfingunni sem haldin verður í Skorradalnum annað kvöld, en aðstæður þar þykja einkar varasamar kvikni gróðureldar.

„Ef eitthvað gerist þarna inn frá þá verður leitað allra leiða til að koma upplýsingum til fólks, bæði með SMS-sendingum, útvarpi og öðru,“ segir Þórður um Skorradalinn og eldhættuna sem fylgi þurrkunum. „Ég vil ekki vera að mála skrattann á vegginn, en ef til kemur þá verður það allsherjarútkall með lögreglu, slökkviliði, sjúkraliði og björgunarsveitum.

Ekki henda sígarettustubbum, nota einnota grill eða kolagrill

Um 650 bústaðir eru í Skorradal, en í heild skipta sumarhúsin í Borgarbyggð þúsundum. „Það eru alveg gríðarleg verðmæti sem eru þarna í húfi,“ segir Þórður og kveður slökkviliðsmenn vera með fæturna á jörðinni en þó vissulega á varðbergi.

Mikið af gróðri er í dag á þeim svæðum þar sem sumarhúsin eru og hafa margir plantað trjám og runnum í kringum bústaði sína til að skapa skjól. Við langvarandi þurrka eins og hafa verið undanfarið getur eldhættan hins vegar verið mikil.

Þórður segir slökkviliðið því ráðleggja fólki að kveikja alls ekki neina elda og forðast að grilla með einnota grillum og kolagrillum.

„Síðan er það sérstaklega þetta með sígaretturnar — að henda ekki frá sér glóandi stubbum,“ segir hann. „Eins og staðan er núna þá getur líka kviknað í út frá því að bíll eða fjórhjól standi í gangi á þurru landi, því þá getur hreinlega myndast íkveikja út frá pústinu. Við höfum lent í svoleiðis og þær aðstæður eru sannarlega til staðar núna.“

Áhyggjur af leigubústöðum

Að sögn Þórðar á slökkvilið Borgarbyggðar jafnan í góðu samstarfi við félög sumarhúsaeigenda í héraðinu, sem hann segir leita mikið til slökkviliðsins varðandi ráðgjöf og eldvarnir. „Fólk er alveg meðvitað um þetta núna,“ segir hann. „Það eru kannski helst þeir sem eru að fara í leigubústaði og þeir sem eru að fara í bústað í fyrsta skipti sem við höfum frekar áhyggjur af.

Mbl.is ræddi í gær við Dóru Hjálm­ars­dóttur, ör­ygg­is­ráðgjafa og verk­fræðing­ hjá Verkís um forvarnir og fyrstu viðbrögð við gróðureldum, en Verkís er ásamt Skóg­rækt­inni, Bruna­vörnum Árnes­sýslu, Mann­virkja­stofn­un, Lands­sam­bandi sum­ar­húsa­eig­enda, Fé­lagi slökkviliðsstjóra, og Lands­sam­tökum skóg­ar­eig­enda með átak í gangi við kynn­ingu á gróðureld­um, hætt­um, for­vörn­um og viðbrögðum.

Sagði Dóra þörf vera á að skipuleggja brunavarnir fyrir allar sumarhúsabyggðir á landinu. Vinna við slíkt er víða komin í gang við nýrri sumarhúsabyggðir, en að sögn Dóru eru þessi mál víða í ólestri á eldri svæðum.

Þá sé mik­il­vægt að fólk sé búið að kort­leggja hvaða leiðir það kemst frá bú­staðnum, fari svo að gróðureld­ar kvikni. „Það get­ur komið fyr­ir að öku­leiðir tepp­ist, til dæm­is vegna þess að eld­ur­inn nær yfir veg­inn,“ sagði hún og þá skipti máli að vita hvar ör­uggu svæðin sé að finna.

Viðbragðsáætlun til fyrir Skorradalinn

Þórður segir uppfærslu brunavarnaáætlunar Borgarbyggðar vera í vinnslu og að til standi að uppfæra hana síðar í sumar.  Varðandi Skorradalinn segir hann almannavarnir hafa gefið út sérstaka viðbragðsáætlun fyrir svæðið. Sér sé hins vegar ekki kunnugt um að slík áætlun sé til fyrir önnur sumarhúsasvæði í Borgarbyggð.

Skorradalurinn er líka erfiður varðandi aðkomu því ekki liggur nema ein leið út úr þessum þrönga dal. „Ef það kemur upp sú staða að það kemur upp eldur inni í miðjum dal og vegurinn lokast, þá er það eina sem fólk getur gert að fara inn fyrir vatn og bíða þar þar til ástandið er orðið tryggt,“ segir Þórður. Vissulega liggi vegaslóðar þar upp úr dalnum, en þeir séu ekki færir venjulegum fólksbílum.

Sumarhúsaeigendur hafa ítrekað óskað bóta á þessu ástandi og það hefur slökkvilið líka gert.“ Við höfum bent á þetta og almannavarnarnefnd líka,“ segir Þórður. „Best væri að fá hringveg í kringum vatnið, það er það eina örugga í stöðunni.“

mbl.is