Vísa yfirlýsingum VR til föðurhúsanna

„Stjórn sjóðsins ber skylda til að gæta hagsmuna allra sjóðfélaga …
„Stjórn sjóðsins ber skylda til að gæta hagsmuna allra sjóðfélaga og ávaxta iðgjöld þeirra með besta mögulega hætti í þeim tilgangi að tryggja þeim sem bestan lífeyri.“ mbl.is/Golli

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um vaxtabreytingar hjá sjóðnum. Þar segir að „stóryrtar yfirlýsingar“ um að stjórn lífeyrissjóðsins hafi einungis verið að hækka vexti lána, byggi á „afar veikum grunni, svo ekki sé dýpra í árinni tekið“ og vísað er til þess að samhliða því að breytilegir vextir voru hækkaðir úr 2,06% upp í 2,26% hafi fastir verðtryggðir vextir á lánum sjóðsins verið lækkaðir úr 3,6% niður í 3,4%.

Þá segir stjórn sjóðsins að ákvarðanir um vaxtabreytingar séu ætíð teknar með „hagsmuni sjóðfélaga og lántakenda að leiðarljósi, aldrei af græðgi, geðþótta, illkvittni eða til að ganga í berhögg við kjarasamninga.“

Stjórnin vísar einnig yfirlýsingum um annarlegan tilgang eðlilegra vaxtabreytinga til föðurhúsanna, en Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann teldi sjóðinn augljóslega vera að vinna gegn þeirri vegferð sem verkalýðshreyfingin í landinu væri, sem miðaði að því að lækka vexti.

„Breytilegir vextir verðtryggðra lána breytast þann 1. ágúst næstkomandi af þeirri einföldu ástæðu að þeir voru bundnir við úrelt viðmið, sem í raun þýddi að vextirnir voru orðnir óeðlilegir. Vaxtaviðmiðið hafði miðast við breytingu á ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks hjá Íbúðalánasjóði (HFF150434) en viðskipti með þann flokk höfðu minnkað það mikið að viðmiðið var ekki lengur talið eðlilegt eða raunhæft.  Því var ákveðið að miða við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa og samanburðarhæfra skuldabréfa, ásamt þeim vaxtakjörum sem eru á markaði, að teknu tilliti til áhættumats,“ segir stjórnin og bætir því við að fastir verðtryggðir vextir lána sjóðsins séu jafnframt með þeim allra lægstu sem bjóðast hérlendis og breytilegir vextir lána sjóðsins þeir þriðju lægstu á markaðnum.

Skylda að tryggja félögum sem bestan lífeyri

„Á sama tíma er rétt að minna á að breytilegir vextir, þýða einmitt að þeir séu breytilegir og það eftir aðstæðum hverju sinni,“ ritar stjórnin og bætir við að sjóðfélagar séu um 170 þúsund talsins en lántakendur með breytilega verðtryggða vexti um 3.700 talsins.

„Stjórn sjóðsins ber skylda til að gæta hagsmuna allra sjóðfélaga og ávaxta iðgjöld þeirra með besta mögulega hætti í þeim tilgangi að tryggja þeim sem bestan lífeyri. Það samræmist illa þessari afdráttarlausu skyldu að taka hagsmuni 3.700 lántaka framyfir allan þorra sjóðfélaga með því að festa vexti sem eiga samkvæmt ákvæðum skuldabréfanna að vera breytilegir,“ segir í yfirlýsingu sjóðsins, sem Ólafur Reimar Gunnarsson stjórnarformaður ritar undir.

mbl.is