Sakar Guðrúnu og SA um lögbrot

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir SA og Guðrúnu Hafteinsdóttur, …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir SA og Guðrúnu Hafteinsdóttur, varaformann stjórnar LV, brjóta lög. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að stjórn VR hafi skipað fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) í samræmi við álit Fjármálaeftirlitsins (FME) neitar Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar sjóðsins, að tilkynna eftirlitinu um skipun nýrrar stjórnar og boða stjórnarfund.

Þetta fullyrðir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is og sakar hann Samtök atvinnulífsins og Guðrúnu um lögbrot.

VR stefndi FME og stjórn LV 26. júlí fyrir að viðurkenna ekki lögmæti afturköllun umboðs þeirra stjórnarmanna sem skipaðir eru í stjórn sjóðsins af VR. Var ákvörðunin talin ólögmæt þar sem hún hafi verið tekin af fulltrúaráði VR í stað stjórnar, en VR segir stjórnina hafa heimild til þess að veita fulltrúaráðinu umboð.

Á fundi stjórnar VR þann 14. ágúst var ákveðið að skipa fulltrúa í stjórn LV til bráðabirgða í samræmi við álit FME. Hins vegar hafi Guðrún neitað að tilkynna nýja stjórn til FME og boða stjórnarfund, að sögn Ragnars Þórs.

„Munum bregðast við útspili SA“

„Hluti Samtaka atvinnulífsins heldur áfram að brjóta lög með því að neita að tilkynna ekki skipun nýrrar stjórnar til Fjármálaeftirlitsins og boða nýjan stjórnarfund. Samtök atvinnulífsins, eða sá hluti stjórnarinnar, virðist komast upp með það án athugasemda bæði fjölmiðla og eftirlitsaðila að brjóta lög.“

FME og stjórn LV hafa farið fram á að Héraðsdómur Reykjavíkur vísi stefnu VR frá og fékk stéttarfélagið afhentar greinargerðir FME og LV í gær. „Við fáum ekki betur séð en að Fjármálaeftirlitið sé að taka algjörlega undir okkar málflutning,“ segir Ragnar Þór og vísar til þess að í greinargerð FME er endurtekið álit þess efnis að skipun stjórnarmanna LV sé í höndum stjórnar VR.

„Við munum bregðast við þessu útspili Samtaka atvinnulífsins að boða ekki fund með nýrri stjórn í dag eða á næstu dögum,“ bætir hann við og segir lögmenn félagsins vera fara yfir þennan anga málsins.

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir.

Til bráðabirgða

Þeir fjórir sem skipaðir hafa verið í stjórn LV af stjórn VR eru aðeins skipaðir til bráðabirgða, útskýrir Ragnar Þór. „Hins vegar er að fara í gang hið formlega valferli. Þessir aðilar eru aðeins til bráðabirgða þangað til að formlega ferlinu er lokið. Við auglýstum eftir fólki til þess að sinna þessu starfi.“

„Síðan mun fulltrúaráð félagsins – þegar nýjar reglur taka gildi sem fjármálaráðuneytið hefur til skoðunar og staðfestingar – taka ákvörðun og þannig mun ákvörðunin vera tekin af stærra baklandi.“

mbl.is