Segir vegi FME „órannsakanlega“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mbl.is/Hari

Stjórn VR skipaði í gærkvöldi nýja bráðabirgðafulltrúa sína í Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Dómsmál VR gegn Fjármálaeftirlitinu var þingfest fyrir viku síðan og óskuðu FME og LV eftir frávísun málsins. Samþykki FME nýja bráðabirgðastjórn VR gæti það haft áhrif á málið. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir FME og LV hafa frest fram til 22. ágúst til að skila greinargerð vegna frávísunarbeiðninnar. 

„Málið var þingfest 8. ágúst og lögmenn FME og LV lýstu því strax yfir að það yrði krafist frávísunar sem var svo sem viðbúið og málinu var frestað um tvær vikur svo að þeir gætu tekið saman greinargerð um þessa frávísunarkröfur.

„Auðvitað grunar mann alveg hver rökin verða en þeir hafa náttúrulega ekki skilað greinargerð um kröfurnar þannig það hefur í sjálfu sér ekki komið í ljós hvert efnislegt innihald frávísunarinnar verður,“ segir Ragnar. 

Ný bráðabirgðastjórn skipuð í gærkvöldi

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur samþykkti í lok júlí flýtimeðferð í dóms­máli VR gegn Fjár­mála­eft­ir­lit­inu, en VR ger­ir kröfu um að ákvörðun Fjár­mála­eft­ir­lits­ins, þess efn­is að viður­kenna ekki lög­mæti ákvörðunar full­trúaráðs VR um að aft­ur­kalla umboð stjórn­ar­manna í Líf­eyr­is­sjóði verzl­un­ar­manna, verði dæmd ógild. 

Í gærkvöldi skipaði stjórn VR nýja bráðabirgðafulltrúa sína í lífeyrissjóðinn. 

„Við staðfestum á stjórnarfundi í gær nýja bráðabirgðastjórn. Það var samþykkt að fara í þetta nýja faglega valferli sem við sömdum um í kjarasamningum að fara í með fulltrúarráðinu. Við sem sagt erum búin að staðfesta nýja bráðabirgðastjórn eins og Fjármálaeftirlitið gaf í skyn að eingöngu stjórn en ekki fulltrúarráðið gæti.“

Býst við niðurstöðu VR í hag

Ragnar segist vera bjartsýnn á framhald máls VR gegn FME og LV fyrir héraðsdómi. 

„Réttarstaða okkar er alveg klár og skýr og ég get ekki séð að það er hægt að fá neitt annað út úr þessu en niðurstöðu okkur í hag. 

„Hins vegar gæti það breytt svolítið stöðunni ef Fjármálaeftirlitið gerir ekki athugasemd við ákvörðun stjórnar í gærkvöldi um að staðfesta þessa nýju stjórn sem við vorum að skipa í LV. Ef að FME gerir ekki athugasemd við þá skipun sem stjórnin tók í gær, þá gæti það hugsanlega breytt dómsmálinu,“ segir Ragnar

„Þá eru hagsmunir félagsins væntanlega orðnir eitthvað óljósir ef að FME staðfestir skipunina. En það er ekki mitt að dæma um það. Það verður bara að koma í ljós. Vegir Fjármálaeftirlitsins eru órannsakanlegir. Ég gef mér ekkert í því. Við tökum þessar ákvarðanir sem lögmætir skipunaraðilar og gerum það eftir reglum sem við höfum sett okkur langað til að eitthvað annað kemur í ljós.“

Uppfært klukkan 13:35

Tillaga að nýjum bráðabirgðafulltrúum í stjórn LV var samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu. Einnig var samþykkt að hafið yrði strax faglegt umsóknarferli um framtíðarstjórn sem tekur við af neðangreindum aðilum. Munu eftirfarandi aðilar sitja í stjórn lífeyrissjóðsins:

Aðalmenn
Bjarni Þór Sigurðsson
Guðrún Johnsen
Helga Ingólfsdóttir
Stefán Sveinbjörnsson

Varamenn
Sigríður Lovísa Jónsdóttir
Björn Kristjánsson
Selma Árnadóttir
Oddur Gunnar Jónsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert