Hlífði Beastie Boys við slúðurpressunni

Klaus Ortlieb hefur marga fjöruna sopið í hótelbransanum síðustu fjörutíu …
Klaus Ortlieb hefur marga fjöruna sopið í hótelbransanum síðustu fjörutíu árin í Evrópu, Bandaríkjunum og svo á Íslandi frá 2013. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efni: Fallandi hlutir úr glugga

„Kæri Hr. Yauch.

Mér hefur borist fjöldi kvartana um að hlutir séu að falla út um gluggann hjá þér og lenda á fólki á gangstéttinni.

Vinsamlega láttu mig vita ef það er eitthvað gallað í gluggunum hjá þér þannig að við getum komið í veg fyrir þetta vandamál.

Ég hlakka til þess að vinna með þér að þessu máli.

Virðingarfyllst,

KO.“

Svo hljóðaði orðsending frá Klaus Ortlieb, þá hótelstjóra á Mondrian-hótelinu í Los Angeles, til Adams „MCA“ Yauch heitins, rappara og bassaleikara í hljómsveitinni Beastie Boys, í ágúst árið 1988.

Bréf þetta var sent upp á hótelsvítuna, þar sem Yauch og félagar hans, höfðu verið að kasta stólum, spjótum, kynlífsleikföngum og öðru lauslegu af áttundu hæð hótelsins.

31 ári eftir að Klaus ritaði þessi diplómatísku skilaboð til …
31 ári eftir að Klaus ritaði þessi diplómatísku skilaboð til eins forsprakka Beastie Boys hanga þau á vegg á listasýningu í New York.

Bréfið er nú til sýnis á listasafni í New York og hefur vakið þó nokkra athygli, meðal annars bandaríska grínistans Seth Rogen, sem sagði á Twitter-síðu sinni að hann óskaði sér þess að verða einn daginn svo svalur að hann fengi bréf sem þetta frá Mondrian-hótelinu.

Þeir urðu ljúfir sem lömb“

„Ég hefði getað sagt frá þessu og það hefði verið PR-martröð fyrir sveitina, en ég ákvað að fara diplómatísku leiðina og halda fjölmiðlunum frá þessu,“ segir hótelmógúllinn og Reykvíkingurinn Klaus Ortlieb, þegar hann rifjar þetta atvik upp hlæjandi í samtali við blaðamann mbl.is á Hlemmur Square-hótelinu í miðborginni.

Rapptríóið Beastie Boys á níunda áratugnum. Adam Horovitz, Michael Diamond, …
Rapptríóið Beastie Boys á níunda áratugnum. Adam Horovitz, Michael Diamond, og Adam Yauch, sem eru einnig þekktir undir nöfnunum Ad-Rock, Mike D og MCA.

Þrjátíu og eitt ár er liðið frá þessum gjörðum Beastie Boys sem lögðu vegfarendur á gangstéttinni fyrir neðan í stórhættu. Klaus segir að hann hafi leyst málin farsællega með MCA og félögum hans, sem hafa svo greinilega alla tíð haldið upp á bréfið frá hótelstjóranum kurteisa.

„Þeir spurðu hvort ég vildi að þeir færu, en ég sagði að það vildi ég ekki, ég vildi bara að þeir hættu að leggja fólk í stórhættu. Þetta voru ungir strákar og þeir gerðu mistök, sennilega undir einhverjum áhrifum sem tóku yfir heilastarfsemi þeirra, svo ég reyndi að ná til þeirra með öðrum leiðum,“ segir Klaus, enn þá hálfhlæjandi er hann rifjar upp að sveitin hafi greitt fyrir hlutina sem fleygt var út um gluggann úr svítunni á Mondrian og þakkað honum svo kærlega fyrir að fara ekki með uppátæki þeirra í fjölmiðla.

„Þeir urðu ljúfir sem lömb,“ segir Klaus, sem íhugar að fara út til New York til þess að kíkja á bréfið þar sem það er til sýnis.

Beastie Boys eins og sveitin var skipuð í upphafi níunda …
Beastie Boys eins og sveitin var skipuð í upphafi níunda áratugarins. Frá hægri: Kate Schellenbach, Adam Yauch, John Berry og Michael Diamond.

Þakkar föður sínum lífslexíurnar

Klaus er einn níu systkina og ólst upp syðst í Þýskalandi. Fjölskyldusaga hans er nokkuð merkileg, en Ortlieb-fjölskyldan hafði verið auðug og átt stórt landsvæði við Bodenvatn, á landamærum Þýskalands, Austurríkis og Sviss.

Það breyttist þó mikið með föður hans, sem í síðari heimsstyrjöldinni og aðdraganda hennar tók stöðu gegn dusilmennum Þriðja ríkisins og sigldi meðal annars með á bilinu 60-70 gyðinga yfir landamærin til Sviss, til frelsis undan ofsóknum.

Land fjölskyldunnar og flestar eignir voru teknar eignarnámi af stjórnvöldum þess tíma og þeim gert að flytjast annað. Þetta umrót á stöðu fjölskyldunnar átti sér allt stað áður en Klaus kom í heiminn, árið 1958.

„Ég ber gríðarlega virðingu fyrir föður mínum. Hann sagði að hann gæti ekki lifað með því sem var í gangi og það er það sem við systkinin tókum með okkur út í lífið,“ segir Klaus.

„Líf mitt er fullt af sögum. Einn daginn mun ég …
„Líf mitt er fullt af sögum. Einn daginn mun ég skrifa bók.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti útlendingurinn á Claridge‘s í London

„Líf mitt er fullt af sögum. Einn daginn mun ég skrifa bók,“ segir Klaus, en í spjalli sínu við blaðamann sagði þess hægláti en gamansami Þjóðverji ýmsar af þessum skemmtilegu sögum af fjögurra áratuga ferli hans í hótelbransanum.

Hann lærði hótelstjórnun sem ungur maður í Svartaskógi í Þýskalandi og skellti sér svo út í þann bransa, starfaði á hótelum í Þýskalandi og svo Sviss, áður en hann söðlaði um og hélt til Bretlands. Þar réðst hann ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur sótti um starf og fékk á hinu virta Claridge‘s-hóteli, sem hefur sögulega tengingu við bresku konungsfjölskylduna og er gjarnan dvalarstaður erlendra þjóðhöfðingja er þeir koma í opinberar heimsóknir til Bretlands.

Claridge's-hótelið í London er eitt rótgrónasta og þekktasta lúxushótel í …
Claridge's-hótelið í London er eitt rótgrónasta og þekktasta lúxushótel í heimi.

„Ég var fyrsti útlendingurinn sem fékk vinnu á Claridge‘s,“ segir Klaus og bætir við að þar sem hann hafi verið með þýskan hreim hafi hann ekki verið settur í framlínuna fyrr en framburður hans á enskri tungu varð vinnuveitendunum þóknanlegur. Það varð hann fljótt, segir Klaus – og eftir átta mánuði í starfi var búið að gera hann að yfirumsjónarmanni gestamóttökunnar á hótelinu.

Noregskonungur svelti bresku konungsfjölskylduna

Á árum hans þar kom Ólafur fimmti Noregskonungur eitt sinn í opinbera heimsókn og þá var boðað til viðhafnarkvöldverðar í hans boði á Claridge‘s, þar sem Ólafur og fylgdarlið hans dvaldi.

Klaus útskýrir að sá háttur hafi verið hafður á að þá hafi þau Margrét prinsessa, Filippus prins og Elísabet Bretadrottning komið í þremur mismunandi glæsikerrum að hótelinu, frá Buckingham-höll sem er í grenndinni, og að sú hefðarregla hafi verið á ferðum þeirra þaðan að sá sem fyrstur legði af stað þyrfti að vera kominn inn á hótelið áður en sá næsti legði af stað.

Ólafur fimmti Noregskonungur tryggði Klaus og öðru starfsfólki Claridge's sælkeramáltíð …
Ólafur fimmti Noregskonungur tryggði Klaus og öðru starfsfólki Claridge's sælkeramáltíð og hellti ákavíti í breska aðalinn.

Fyrst af stað frá höllinni var Margrét prinsessa. Hún kom að inngangi hótelsins, en sagði dyraverðinum að loka dyrunum aftur, hún vildi ekki fara strax inn, og gekk að því sögðu í burtu og lét ekki sjá sig fyrr en meira en hálftíma síðar. Af þeim sökum seinkaði komu þeirra Filippusar og Elísabetar drottningar og þar með matnum.

Ólafi Noregskonungi leiddist þófið og var að auki orðinn svangur, svo hann fékk sér að borða á meðan hann beið komu drottningar. Hann var svo gestgjafi viðhafnarkvöldverðarins á Claridge‘s og sú regla var í gildi við slíka opinbera kvöldverði að enginn mætti byrja að borða fyrr en sá sem byði til kvöldverðarins hefði tekið upp gaffalinn og byrjað að borða.

Það gerði Ólafur konungur þó aldrei, því hann var þegar orðinn saddur. „Kóngurinn ákvað að það yrði enginn matur í boði. Hann byrjaði að gefa öllum áfengi. Og fólk var búið að vera að svelta sig í þrjá daga því það vissi að það væri að fara í viðhafnarkvöldverð. Þú getur ímyndað þér hvað allir urðu ölvaðir,“ segir Klaus, en tekur þó fram að Elísabet drottning hafi ekki viljað ákavíti heldur haldið sig við vatnið.

Hvað var svo gert við matinn? Jú, Klaus og aðrir starfsmenn Claridge‘s fengu að borða allt, þegar gestir viðhafnarkvöldverðarins voru farnir. „Þökk sé kónginum!“

Nicolas Cage drakk allan daginn fyrir hlutverk

Eftir nokkur góð ár á Claridge‘s hélt Klaus heim til Þýskalands og starfaði þar um tíma, en svo fór hann til Bandaríkjanna, þar sem hann settist að í Los Angeles og fékk starf sem hótelstjóri á Mondrian-hótelinu þar í borg og stjórnaði einnig fleiri hótelum í borginni áður en hann hélt til New York, þar sem hann hélt farsælum ferli sínum áfram.

Í Bandaríkjunum upplifði Klaus marga skemmtilega hluti og kann ýmsar sögur af gestum sínum, sem honum verður eflaust fyrirgefið að rifja upp núna áratugum síðar í viðtali sem birtist á íslensku, þrátt fyrir að almennt sé nú ákveðinn trúnaður á milli gestgjafa í hótelrekstri og þeirra sem á hótelunum gista.

Nicolas Cage lék áfengisfíkil í myndinni Leaving Las Vegas og …
Nicolas Cage lék áfengisfíkil í myndinni Leaving Las Vegas og var að sögn Klaus oftast drukkinn í alvörunni. AFP

Á einu hótelanna sem Klaus stýrði á tíma sínum í Los Angeles dvaldi leikarinn Nicolas Cage mánuðum saman, á meðan tökur á myndinni Leaving Las Vegas, sem kom út árið 1995, stóðu yfir. Klaus segir að stórleikarinn hafi drukkið nánast endalaust meðan á tökum stóð, en í myndinni leikur Cage alkóhólista með sjálfsvígshugsanir, nýskilinn og nýrekinn úr vinnu, sem ákveður að flytja til Las Vegas og drekka sig í hel.

Fram hefur komið að Cage fór til Dyflinnar er hann var að undirbúa sig fyrir hlutverkið og sat þar við nær stanslausa drykkju í tvær vikur, til þess að setja sig inn í hugarheim áfengisfíkilsins.

„Hann lék algjöra fyllibyttu og það þurfti að senda einhvern á hverjum degi til þess að kaupa 5-6 viskíflöskur eða hvað það var nú sem hann var að drekka allan daginn og á hverju kvöldi fór hann fullur á tökustað. Svo á morgnana þurfti hann endalaust kaffi til þess að geta látið renna af sér,“ segir Klaus og minnist svo í framhjáhlaupi á að kvikmyndagerðarkonan Sofia Coppola, náfrænka Cage, sé kær vinkona hans.

Starfsmaður hundeltur af hundi Juliu Roberts

Fleiri atvik af starfsferlinum þar sem kunnar kvikmyndastjörnur koma við sögu rifjast upp fyrir Klaus í spjalli hans og blaðamanns. Eitt tengist hundi leikkonunnar Juliu Roberts, en hún dvaldi á hóteli sem Klaus stýrði í miðborg Los Angeles í upphafi tíunda áratugarins, skömmu eftir að hún sló í gegn í myndinni Pretty Woman.

Hún átti þá stóran hund sem var blanda af þýskum fjárhundi og rottweiler og á meðan hún hélt til vinnu var hundurinn í herbergi hennar. Roberts lét starfsfólk hótelsins vita af því að hundurinn væri með mikið varðhundaeðli og að undir engum kringumstæðum ætti starfsfólk að fara inn í vistarverur hennar til þess að þrífa á meðan hundurinn væri einn þar inni, það gæti hreinlega reynst hættulegt.

Julia Roberts átti góðan varðhund.
Julia Roberts átti góðan varðhund. AFP

„Einn daginn heyri ég svo þessi þvílíku læti og sé ungan mann hlaupa fram hjá með hundinn á eftir sér. Og svo átta ég mig á því að þetta er starfsmaður okkar! Hann hljóp út á Sunset Boulevard, með hundinn á eftir sér og gat ekki stoppað,“ segir Klaus.

Til allrar hamingju var Julia Roberts steinsnar frá hótelinu og náði að kalla hundinn til sín og bjarga starfsmanninum. „Hún var alltaf með þennan hund með sér,“ segir Klaus og rifjar upp er hann sá hana á göngu í New York eitt sinn, „það gat enginn nálgast hana, um leið og einhver gerði sig líklegan til þess þá beraði hundurinn tennurnar.“

Sér fram á að flytja til Marokkó vegna Brexit

Klaus settist að í New York skömmu fyrir aldamót og tók þar þátt í því að koma ýmsum hótelum á laggirnar, meðal annars Mercer-hótelinu í Soho. Hann átti heima í borginni 11. september 2001 og segist ávallt eiga eftir að muna þann hörmungadag, sem setti svip á borgarbraginn mörg ár á eftir og hafði mikil áhrif á ferðamannastraum til borgarinnar og þar með hans lífsviðurværi, en Klaus lenti á löppunum og var farsæll eftir að hann fór í auknum mæli út í sinn eigin rekstur í borginni á síðasta áratug.

„Mig langar að flytja þetta konsept sem við erum með …
„Mig langar að flytja þetta konsept sem við erum með hérna, hótel og hostel, til Marrakech. Það er margt ungt fólk að fara þangað, í göngur í Atlas-fjöllunum og fleira.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Klaus hefur verið á Íslandi frá því Hlemmur Square hóf starfsemi árið 2013 og líkar vel, en hann heldur heimili bæði í Reykjavík og í Lundunúm og býr þar til skiptis. Hann var kunnugur landi og þjóð áður en hann ákvað að grípa tækifæri sem bauðst til þess að koma að opnun hótelsins á Hlemmi.

„Ég flaug oft á milli Bandaríkjanna og Evrópu á árum áður og þá var ekki jafn mikið um bein flug yfir hafið. Því flaug ég oftast til Íslands og dvaldi í Reykjavík í tvær nætur og naut mín í þessari litríku borg,“ segir Klaus.

Hann sér fram á breytingar á högum sínum á næstunni. „Ég ætla sennilega að flytja frá London út af Brexit og öllu þessu sem er í gangi,“ segir Klaus og bætir við að hann hafi augastað á því að flytja til Marrakech í Marokkó, þar sem hann hyggur á frekari landvinninga í hótelbransanum.

„Mig langar að flytja þetta konsept sem við erum með hérna, hótel og hostel, til Marrakech. Það er margt ungt fólk að fara þangað, í göngur í Atlas-fjöllunum og fleira.“

Þrjú hjónabönd orðið til á Hlemmur Square

Eins og margir eflaust vita er Hlemmur Square byggt upp með bæði hótelherbergjum af hefðbundnu tagi, en einnig sameiginlegum gistirýmum þar sem á annan tug gesta dvelja saman í kojum. Hann segir þetta draga að ólíka kúnnahópa, yngra fólk sæki frekar í hostelið, en þeir eldri gisti á hótelinu.

Í sameiginlegu rými niðri við barinn og veitingastaðinn kviknar svo stundum ást ókunnugra ferðalanga og segist Klaus vita til þess að þrjú hjónabönd hafi hafist með kynnum á Hlemmi. Svo hefur fólkið komið aftur til þess að heimsækja hótelið, jafnvel í brúðkaupsferðum sínum.

Það er þó gáfulegra, þegar slík kynni takast, að annar aðilinn sé með einkaherbergi á efri hæðum hótelsins. Klaus lýsir því að á síðasta ári hafi hann gengið fram á ungt fólk stunda kynlíf síðla kvölds á stigagangi hótelsins, sem sé ekki til eftirbreytni.

En eftir fjörutíu ár í hótelbransanum er orðið fátt sem kemur honum á óvart.

mbl.is