Sársaukafullt að senda börn úr landi

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Hari

Umboðsmaður barna segir að það komi á óvart að stjórnvöld hér á landi sendi börn sem óski eftir hæli hér til Grikklands. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir dóms­málaráðherra sagði í gær að einblína þyrfti á þá sem eru í mestri neyð þegar farið er yfir umsóknir um alþjóðlega vernd.

Rætt var við Salvöru Nordal, umboðsmann barna, á Morgunvaktinni á Rás 1.

Breytingar voru gerðar á reglugerð nr. 540/​2017 um út­lend­inga á föstudag. Með breytingunni er Útlendingastofnun heimilt, en ekki skylt, að taka upp mál barna sem hafa verið í kerfinu í 10 mánuði eða lengur.

Salvör sagði að það væri mjög sársaukafullt að senda börn til baka, sérstaklega þegar þau hafi dvalið hér í einhvern tíma og náð að festa rætur.

Fram kom í máli Salvarar að flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi meðal annars bent á óviðunandi aðstæður flóttafólks í Grikklandi.

Hún spyr hvort forsvaranlegt sé að senda börn þangað þótt þau hafi fengið dvalarleyfi þar og þætti eðlilegt að gerð yrði sérstök skoðun á því.

Salvör fundar með dómsmálaráðherra í vikunni vegna málsins.

mbl.is