5 mánaða gamall drengur illa haldinn

Eitt barn hefur verið útskrifað af Barnaspítala hringsins eftir bráðanýrnabilun …
Eitt barn hefur verið útskrifað af Barnaspítala hringsins eftir bráðanýrnabilun (HUS). Þriggja ára stúlka er á batavegi en líðan fimm mánaða drengs hrakar. Mynd/mbl.is

Líðan fimm mánaða drengs sem er með bráðanýrnabilun af völdum E. coli-sýkingar fer hratt versnandi og það skýrist á næstu tveimur sólarhringum hvort hann þurfi á blóðhreinsun að halda, segir Viðar Örn Eðvarðsson, sérfræðingur í nýrnalækningum barna, í samtali við mbl.is

Rannsóknir á nokkurra klukkustunda fresti

„Þetta er ekki stöðugt ástand og líðan fer versnandi þannig við verðum bara að sjá til hvort hann þurfi á blóðhreinsun að halda eða ekki. Það getur komið í ljós hvenær sem er á næstu tveimur sólarhringum,“ segir Viðar Örn og bætir við:

„Það fara fram blóðrannsóknir á nokkurra klukkustunda fresti til að sjá hvort það er nægilega mikil versnun til að réttlæta slíkt inngrip.“

Fyrir um klukkustund síðan bárust niðurstöður úr hægðasýnum sem staðfestu að tvö börn til viðbótar eru með E.coli-bakteríuna. Samtals eru börnin því orðin tólf talsins.

Þrjú börn með bráðanýrnabilun 

Þrjú barnanna voru lögð inn á Barnaspítala hringsins með bráðanýrnabilun (HUS) og eitt þeirra hefur verið útskrifað. Auk þess liggur fimm mánaða gamli drengurinn inni á spítalanum sem og þriggja ára stúlka, Aníta Katrín Ægisdóttir, sem er á batavegi.

„Stúlkan er á batavegi og hefur ekki þurft á blóðhreinsun að halda í 36 klukkustundir þannig ég held að hún sé á góðri leið með að ná sér. Miklum batavegi,“ segir Viðar Örn. Hann telur það langlíklegustu niðurstöðuna að hún komi til með að ná sér að fullu, þó að það sé ómögulegt að segja til um það á þessum tímapunkti.

„Það gæti verið einhver væg skerðing á nýrnastarfsemi en það er ekkert sem ætti að há henni. Maður veit það ekki alveg en það er ekki líklegt. Flestir ná sér alveg,“ útskýrir Viðar Örn.

Ægir Þorleifsson faðir Anítu segir í samtali við mbl.is að hún sé á hægt og rólega að jafna sig og er bjartsýnn á framhaldið.

Fleiri gætu greinst á næstu dögum

Enn á eftir að fá niðurstöður úr fjölda sýna sem tekin voru frá einstaklingum sem hafa verið í Efstadal II þar sem E. coli-smitið kom upp.

Foreldrar barna skuli fyrst leita á heilsugæslu 

Viðar Örn ítrekar að á meðan faraldur gengur yfir sé rétt að foreldrar barna með niðurgang leiti til heimilislæknis eða sjálfstætt starfandi barnalækna til að minnka álagið á bráðamóttökuna, sem er mikil þessa daganna.

„[Foreldrar] skuli fyrst leita til heilsugæslu því nýrnabilun kemur alls ekki fyrstu daganna. Það er ekki fyrr en eftir fimm daga í fyrsta lagi, oftast eftir átta til níu daga. Þannig þeir sem eru rétt byrjaðir að veikjast eiga helst að leita til heilsugæslu til að byrja með,“ útskýrir Viðar Örn. Á heilsugæslu er hægt að gera próf með erfðatækni sem gefur niðurstöðu innan sólarhrings.

Hann bætir því þó við að allir sem greinast með bakteríu í hægðum eða eru með blóðugan niðurgang geti komið á Barnaspítala hringsins í læknisskoðun og rannsóknir.

„Minna alvarleg vandamál koma ekki í veg fyrir að þeir sem eru meira veikir fái þjónustu. Allir sem hafa virkilegar áhyggjur af því að fá ekki úrlausn vanda síns annars staðar eiga að koma hingað [Barnaspítala hringsins],“ segir hann að lokum.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:55.

Viðar Örn Eðvarðsson er sérfræðingur í nýrnalækningum barna.
Viðar Örn Eðvarðsson er sérfræðingur í nýrnalækningum barna. Ljósmynd/Landspítali
mbl.is