Starfsmaðurinn smitaði ekki ferðamanninn

Enn var opið í ísbúðinni í Efstadal II eftir að …
Enn var opið í ísbúðinni í Efstadal II eftir að E.coli smitin höfðu verið rakin þangað. 8. júlí smitaðist erlendur ferðamaður þar, eftir að átti að vera búið að útiloka frekari smit á staðnum. Hann smitaðist þó ekki vegna íss, að því er talið er, enda ísinn sem var seldur eftir aðgerðirnar frá öðrum framleiðanda. mbl.is/​Hari

Það er útilokað að erlendi ferðamaðurinn sem heimsótti Efstadal 8. júlí og smitaðist þar af E.coli bakteríunni hafi smitast við snertingu við fullorðna starfsmanninn, sem komið hefur á daginn að var sýktur. 

Þetta segir Björgvin Jóhannesson, einn af eigendum Efstadals. Hann kveðst aðspurður vonast til þess að eftir að faraldurinn gangi yfir og málið er leitt til lykta geti starfsemi og þjónusta í Efstadal haldið áfram. 

„Miðað við jákvæðu fréttirnar sem við höfðum verið að fá, um að börnin væru komin heim af sjúkrahúsunum og slíkt, þá var sjokk að heyra þetta,“ segir Björgvin um þær fréttir sem voru sagðar í dag, af tveimur fullorðnum einstaklingum sem greinst hafa með E.coli, ferðamanninum og starfsmanninum.

„Það voru allir orðnir bjartsýnir um að að þessari hrinu væri lokið. Það er samt þannig að við höfum enn trú á því, og tökum undir orð sóttvarnarlæknis, að þetta sé að fjara út,“ segir hann. 

Björgvin Jóhannesson segir að nýjustu vendingar í málinu hafi verið …
Björgvin Jóhannesson segir að nýjustu vendingar í málinu hafi verið sjokk, þar sem talið var að allt væri farið að horfa til betri vegar. Haraldur Jónasson/Hari

Það var 4. júlí sem það fékkst staðfest að E.coli sýkingar nokkurra barna hafi orðið í heimsókn þeirra á Efstadal. Strax þann dag var kálfastíu lokað, þaðan sem smitin voru talin hafa komið. Áfram var seldur ís, þó að ekki hafi verið seldur áfram ís sem framleiddur var í Efstadal. Á þessu stigi er liggur ekkert fyrir um hvernig erlendi ferðamaðurinn sem smitaðist 8. júlí smitaðist og að sögn Björgvins er of snemmt að fara út í getgátur um það.

Björgvin vill, af virðingu við starfsfólkið á staðnum, ekki gefa upp við hvað starfsmaðurinn sem sýktist hafi starfað. Hann tekur fram að starfsmaðurinn sýslaði aldrei með mat eða ís.

Sjónum beint að umhverfinu í kringum kálfastíuna

Þess vegna er áherslan núna á umhverfið nálægt kálfastíunni umræddu, sem var þó strax lokað 4. júlí, og var því lokuð þegar ferðamaðurinn átti leið um bæinn 8. júlí. Þar sem sýni tekin úr mat á svæðinu hafa ekki bent til þess að þar liggi orsökin, gætu samskipti við dýr í kringum eða fyrir utan stíuna umræddu legið að baki sýkingu ferðamannsins.

Björgvin segir að nú sé beðið allra niðurstaðna úr sýnatöku sem gerð var á öllu starfsfólki bæjarins. Niðurstöðurnar hingað til hafi verið neikvæðar, það er, engar sýkingar, nema þessi eina sem hér hefur verið rædd. Enn á eftir að koma í ljós hvað olli henni.

Vegna þess að í ljós kom að ráðstafanirnar sem gerðar voru 4. júlí voru ekki nægar til þess að smit kæmi ekki upp þann 8. júlí, hafa heilbrigðiseftirlitið og Matvælastofnun gert kröfu á Efstadal um að hætta sölu íss alveg þar til alþrif hafi verið gerð. Það hefur verið gert. Einnig er krafist alþrifa og sótthreinsunar á veitingastað og aðlægum rýmum. Þessum stöðum var lokað í dag. Aðgengi að dýrum á að vera lokað þar til viðunandi hreinlætisaðstaða hefur verið sett upp og aðskilnaðurinn milli veitingastaðar og dýra á að vera efldur. Að lokum þurfa starfsmenn sem vinna við matvæli að sýna fram á að þeir séu ekki sýktir, sem stefnir í að liggi fyrir.

mbl.is