Segir skipun Ásgeirs „hörmu­leg­ar frétt­ir“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kveðst óánægð með skipun Ásgeirs Jónssonar hagfræðings í embætti seðlabankastjóra. Hún segir skipunina ömurlegar fréttir fyrir láglaunafólk og sakar Ásgeir um að verja hagsmuni fjármagnseigenda og að vera ófæran um að setja sig í spor þeirra eignaminni.

„Þetta er náttúrulega maður sem hefur með bæði gjörðum sínum og orðum sýnt fram á að hann vinnur mjög markvisst að því að gæta hagsmuna fjármagnseigenda, þeirra ríku og valdamiklu í samfélaginu,“ segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is. „Sem eitt af fórnarlömbum hrunsins og sem skattpínd láglaunakona til margra ára finnst mér þetta algjörlega hörmulegar fréttir. Hörmulegar fréttir fyrir verka- og láglaunafólk á Íslandi.“

Hún segir jafnframt að Ásgeir „virðist vera ófær um að setja sig í spor hinna eignalausu, vinnuaflsins. Það hljóta bara að vera ömurlegar fréttir fyrir okkur sem tilheyrum þeirri stétt að forsætisráðherra hafi leitt þennan mann til æðstu valda og metorða á Íslandi.“

Tilkynnt var í gær að dr. Ásgeir Jóns­son hag­fræðing­ur hefði …
Tilkynnt var í gær að dr. Ásgeir Jóns­son hag­fræðing­ur hefði verið skipaður í stöðu seðlabanka­stjóra. mbl.is/​Hari

Sýnir hvernig valdastéttin hugsar

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að Ásgeir mun ekki í starfi sínu taka tillit til stefnu verkalýðshreyfingarinnar, svarar Sólveig Anna játandi.

„Það er augljóst – ef við horfum á feril þessa manns – hverra hagsmuna hann gætir og líka ef við horfum á hvernig hann talaði síðasta vetur í kjaradeilunum. Þá talaði hann bara með þeim hætti að hann virðist ekki vera fær um að setja sig í spor þessa stóra hóps sem hér lifir og starfar fyrir litlar tekjur.“

„Þetta er algjör og endanleg sönnun á því hvernig pólitísk valdastétt á Íslandi hugsar, hvers konar fólki og hvaða hugmyndafræði hún vill lifa og starfa eftir,“ bætir hún við að lokum.

Á Facebook-síðu sinni lýsti Sólveig Anna því í dag að skipaður hafi verið „nýfrjálshyggju-prestur“ í embætti seðlabankastjóra sem boði „hugmyndafræði sem gengur eingöngu út á að tryggja algjör yfirráð þeirra ríku og valdamiklu yfir mannlegu samfélagi“.

Formaður VR bjartsýnn

„Verðum við ekki bara að óska honum til hamingju og vonast eftir því að samstarfið við verkalýðshreyfinguna verði gott?“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um skipun Ásgeirs.

Hann segist jafnframt vona að tekið verði „tillit til okkar stefnu og áherslu í peningastefnu Seðlabankans. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að þetta samstarf gangi vel þangað til annað kemur í ljós.“

Haft hefur verið eftir Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands, í dag að hún telji Ásgeir eiga að fá tækifæri til þess að sýna „hvað í honum býr“. Hún kvaðst þó hafa ákveðnar áhyggjur af afstöðu nýs seðlabankastjóra til launakrafna verkalýðshreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert