Jöfnun lífeyrisréttinda gefin eftir fyrir hækkun

Stéttarfélög innan ASÍ stigu sama dans í lífskjarasamningunum. Misjafnar áherslur …
Stéttarfélög innan ASÍ stigu sama dans í lífskjarasamningunum. Misjafnar áherslur á launahækkanir eða lífeyrisauka skilja nú á milli. mbl.is/​Hari

Verkalýðsfélag Akraness og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir samkomulag 23. júlí þar sem samið var um 105.000 kr. eingreiðslu og 1,5% hækkun til viðbótar umsömdum hækkunum. Samið var um að Verkalýðsfélag Akranes drægi vísun kjaradeilunnar til sáttasemjara til baka og félli frá 1,5% lífeyrisauka.

Vilhjálmur Birgisson er sáttur við samkomulagið og telur nokkuð víst að Verkalýðsfélag Akraness skrifi undir kjarasamning um mánaðamótin ágúst/september. Hann segir betra fyrir sitt fólk sem eigi erfitt með að ná endum saman um mánaðamót að fá launahækkun heldur en lífeyrisauka. Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir slæmt þegar hópurinn haldi ekki saman en félögin fari með samningsumboðið. Björn segir að áfram verði unnið að því að ná 1,5% lífeyrisauka líkt og gert hafi verið frá 2016.

,,Ég er hissa á samningnum sem Verkalýðsfélag Akraness gerði, en óska þeim til hamingu með eingreiðsluna. Eftir stendur að lífeyrisréttindin eru enn ójöfn og hætt er við að hækkunin hverfi,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags í Vestmannaeyjum, en Drífandi er eitt þeirra stéttarfélaga sem óskuðu eftir því að sveitarfélagið, í þessu tilfelli Vestmanneyjabær, greiddi 105.000 kr. eingreiðsluna til starfsmanna sveitarfélagsins líkt og Reykjavík, Tjörneshreppur og nú Akranes hafa gert. Erindi Drífanda var hafnað sem og annarra stéttarfélaga víða um land. Félagsmenn í Eflingu sem vinna hjá Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ hafa lagt fram undirskriftalista til þess að þrýsta á sveitarfélögin að greiða 105.000 kr. uppbót 1. ágúst.

Arnar Hjaltalín segir að gæta verði að lífeyriskerfinu og menn hefðu boðið friðarskyldu gegn því að fá 105.000 eingreiðsluna en ekki verið tilbúnir að gefa eftir jöfnun lífeyrisréttinda, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert