Niðurstaða forsætisnefndar liggur fyrir

Þingmennirnir sem sátu fundinn á Klaustri í nóvember skiluðu inn …
Þingmennirnir sem sátu fundinn á Klaustri í nóvember skiluðu inn andsvörum við niðurstöðu siðanefndar og forsætisnefnd hefur nú metið gildi þeirra. Hún gengur nú frá textanum og birtir hann þingmönnunum, sennilega eftir fund sem haldinn er á fimmtudaginn. mbl.is/​Hari

Bráðabirgðaforsætisnefndin skipuð Steinunni Þóru Árnadóttur þingmanni Vinstri grænna og Haraldi Benediktssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins fór á fundi sínum áðan yfir athugasemdir þær sem Klaustursþingmennirnir höfðu við ályktun siðanefndar um framgang þeirra kvöldið á Klaustri í nóvember. 

Nefndin hefur komist að niðurstöðu um afstöðu sína í málinu, sem byggir á niðurstöðu siðanefndar og athugasemdum frá hlutaðeigandi, en niðurstaðan verður ekki kynnt fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudaginn. Þá fundar forsætisnefndin aftur og gengur frá „formlegheitum“ í málinu, að sögn Haralds.

„Það er fyrst og fremst frágangur málsins sem er ókláraður,“ segir hann og vísar þar til eiginlegrar textagerðar sem er eftir að vinna. Þegar þeirri vinnu er lokið og skrifleg niðurstaða forsætisnefndar er tilbúin sem skjal, verður hún send hlutaðeigandi þingmönnum og í kjölfarið birt opinberlega. 

Hvað sem biðinni líður liggur niðurstaða nefndarinnar fyrir. Niðurstaða forsætisnefndar í málinu hefur ekki formlegar afleiðingar heldur verkar aðeins sem eins konar áfellisdómur yfir þeim sem áttu hlut að máli. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata er eini þingmaðurinn sem hingað til hefur verið dæmdur brotlegur við siðareglur Alþingis. Forsætisnefnd staðfesti þann dóm. 

Niðurstaða forsætisnefndar nú mun eins og segir bæði taka mið af niðurstöðu siðanefndar, sem kom fyrir rúmri viku, og andsvörum þingmannanna, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, sem öll skiluðu slíkum inn eftir að þau fengu að sjá niðurstöðu siðanefndar.

mbl.is