Styðjast við „illa fengin gögn“

For­sæt­is­nefnd fund­ar um Klaustursmálið í dag.
For­sæt­is­nefnd fund­ar um Klaustursmálið í dag. mbl.is/Hari

Í siðanefnd, sem fjallaði um Klaustursmálið svokallaða, sátu þau Margrét Vala Kristjánsdóttir, Róbert H. Haraldsson og Jón Kristjánsson en öll komu þau sem varamenn inn í nefndina. Jón Kristjánsson var formaður nefndarinnar en í bókun hans við álit siðanefndar kemur fram að vegna stjórnmálaþátttöku hans á liðnum tíma, með eða á móti þeim aðilum sem fjallað er um í álitinu, hafi hann skort óhlutdrægni og því ekki tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar. „[...ég] skrifa því ekki undir efnislegar tillögur hennar,“ skrifar hann en áréttar að starfsmenn nefndarinnar og sérfræðingar hafi að hans dómi farið vandlega yfir stöðu mála og unnið málið faglega og af heiðarleika.

For­sæt­is­nefnd fund­ar um málið í dag, en í áliti siðanefndar sem Morgunblaðið hefur undir höndum, kemur fram að þingmennirnir Bergþór Ólason og Gunn­ar Bragi Sveins­son brutu siðaregl­ur alþing­is­manna með um­mæl­um sín­um á Klaustri 20. nóv­em­ber.

Í bréfum bæði frá einstökum Miðflokksmönnum og í sameiginlegu bréfi frá Önnu, Bergþóri, Gunnari og Sigmundi, sem sent var forsætisnefnd vegna málsmeðferðar siðanefndar, eru gerðar athugasemdir við verklag siðanefndar og forsætisnefndar.

Segir m.a. í bréfi frá fjórmenningunum: „Í ljósi þess að Jón Kristjánsson, sem skipaður var formaður varasiðanefndar í málinu sagði sig frá því af pólitískum ástæðum vekur undrun að 7. og 8. varaforseti (ólöglega kjörnir) skuli telja sig bæra til að úrskurða um málið en báðir eru þeir starfandi pólitískir andstæðingar allra þeirra sem um er fjallað.“

Þá er málsmeðferðin einnig gagnrýnd og segir enn fremur í sama bréfi: „Erindi varasiðanefndar til þingmanna þar sem þeim var gefinn kostur á að gera athugasemdir virðist hafa verið sent eftir að nefndin hafði komist að niðurstöðu. Í athugasemdum þingmannanna kom fram að ekki væri hægt að styðjast við illa fengin gögn og að öðrum atriðum yrði ekki svarað fyrr en afstaða hefði verið tekin til þeirrar ábendingar. Siðanefndin vísaði þá á 7. og 8. varaforseta (ólöglega kjörinna [sic]) sem féllust á að ekki væri hægt að styðjast við umrædd gögn en þess í stað yrði stuðst við umfjöllun tiltekinna fjölmiðla! Þá þegar virðist niðurstaða siðanefndarinnar þó hafa legið fyrir án þess að gefið væri tækifæri til að bregðast við efnisatriðum málsins.“

Talar Bergþór í bréfi sínu, þessu álitaefni tengt, um fjölmiðlana Stundina, DV og Kvennablaðið sem séu þekktir fyrir að „fara nærri því að hatast við Miðflokkinn“.

Virðist í báðum atvikum vera vísað til þess þegar forsætisnefnd fór fram á það við siðanefnd, í samræmi við óskir þingmannanna fjögurra, að endurritum hljóðupptaka í vörslu nefndarmanna og ritara siðanefndar yrði eytt. Varð siðanefnd við þeirri beiðni og aflaði „ýmissa annarra gagna og upplýsinga sem hún taldi málið varða“, eins og það var orðað í áliti nefndarinnar.

Segir einnig í athugasemdum þingmannanna að málið heyri „augljóslega ekki“ undir siðareglur Alþingis og að það hafi frá upphafi verið pólitísks eðlis, „og gengið út á að nýta opinbera stöðu til að refsa flokki í minnihluta án stoðar í lögum og reglum“.

Lýsa fjórmenningarnir sér sem þolendum alvarlegs brots á lögum og grundvallarreglum réttarríkja, þ.e. málsmeðferðarinnar, og segja: „Í stað þess að verja þolendur alvarlegs glæps hafa fulltrúar löggjafans leitað allra leiða til að refsa þolendunum.

Fordæmið sem fulltrúar Alþingis, sjálfrar löggjafarstofnunarinnar, gefa með því að byggja á ólögmætum gögnum getur haft víðtæk og skaðleg áhrif til framtíðar.“

mbl.is