Úrslitastundin á heimsleikunum runnin upp

Björgvin kom annar í mark í sínum riðli í annari …
Björgvin kom annar í mark í sínum riðli í annari æfingu dagsins. Ljósmynd/Ingi Torfi

Síðasta æfing heimsleikanna í crossfit sem fara fram í Madison í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum hefur verið kynnt og er að hefjast. Æfingin er kölluð „The Standard“ og samanstendur af 30 jafnhendum (e. clean and jerk), 30 „muscle ups“ og 30 snörunum (e. snatches).

Spennan hefur verið að magnast í allan dag og er nú í algjöru hámarki. Íslendingarnir þrír sem eftir eru standa vel að vígi og þá sérstaklega Björgvin Karl sem er í 3. sæti í karlaflokki.

Katrín Tanja er sömuleiðis í 3. sæti í sínum flokki og Þuríður Erla er í 9. sæti í kvennaflokki. Tvöfaldur heimsmeistari Tia-Clair Toomey er þó komin með nokkuð gott forskot á aðra keppendur og þarf mikið að gerast svo að fyrsta sætið renni henni úr greipum.

Síðasta æfingin mun skera úr um í hvaða sæti keppendur enda og verða heimsmeistarar krýndir fljótlega eftir að henni lýkur.

Keppendur hafa 12 mínútur til að klára æfinguna. Karlarnir munu notast við 61 kg þungar stangir en konurnar 43 kg stangir.

Katrín Tanja stóð sig frábærlega vel í annarri æfingu dagsins og kom sér upp um eitt sæti. Það verður spennandi að sjá hvort henni tekst eins vel til í lokaæfingunni nú eftir stutta stund.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu hér.

Björgvin nánast öruggur upp á pall

„Björgvin er mjög líklegur upp á pall og það þarf eitthvað mikið að gerast svo að hann endi ekki þar. Það er 80 stiga munur milli hans og þess sem er í fjórða sætinu þannig það er nánast öruggt,“ segir Þröstur Ólason, þjálfari hjá CrossFit Reykjavík, í samtali við mbl.is og bætir við:

„Katrín er á palli eins og er og hún þarf að halda stelpunni í fjórða sæti á eftir sér en það eru bara þrjú stig á milli þeirra.“

Hann segir Björgvin ekki eiga möguleika á fyrsta sætinu en að hann eigi tölfræðilegan möguleika á að ná öðru sætinu af Noah Ohlsen. Sá þurfi þó að gera nánast allt rangt svo það verði af því. 

Sögulegur sigur Toomey

Tia-Clair Toomey er heimsmeistari í crossfit þriðja árið í röð. Það hefur aldrei gerst áður og því er um sögulegan sigur að ræða. Magnað afrek.

Katrín Tanja náði sér ekki á strik í síðustu æfingunni og hafnaði í 9. sæti. Jamie Green stóð sig mjög vel og náði að koma sér upp fyrir Katrínu Tönju og í 3. sæti. Sorglegur endir á keppninni fyrir okkar konu.

Þuríður Helga kom áttunda í mark í síðustu æfingunni og endar heimsleikanna í 9. eða 10. sæti.

mbl.is