Neytendasamtökin funda með FEB

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Neytendasamtökin funda með fulltrúum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni síðar í dag vegna íbúða FEB við Árskóga sem ekki hafa fengist afhentar kaupendum. FEB fer fram á það að kaupendur greiði hærra verð en upphaflega var ráðgert. FEB hefur fundað með kaupendunum og boðið þeim að fallast á hærra verð eða falla frá kaupunum.

Félagið segir að kostnaðarauka sé um að kenna, en MótX, verktaki að fjölbýlishúsunum tveimur þar sem íbúðirnar eru, segir að verðmæti íbúðanna hafi verið áætlað of lágt í upphafi. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir málið allt hið skringilegasta. „Áður en við tökum afstöðu viljum við fá að heyra útskýringar FEB. Ég hef aðeins verið í sambandi við þá, en við munum hitta þá á fundi í dag til að ræða þetta,“ segir Breki.

„En það er skringilegt að fólki skuli vera gert að greiða hærra en umsamið verð og fær ekki afhenta lyklana sína nema það skrifi undir einhverja skilmála. Það þykir okkur í það minnsta mjög skringilegt, en við bíðum þess að fá skýringar frá þeim,“ segir hann.

Fjórir hafa haft samband við Neytendasamtökin

Kaupendur að fjórum íbúðum eða fulltrúar þeirra hafa haft samband við Neytendasamtökin vegna málsins, en í þessum hópi mun bæði vera fólk sem skoðar stöðu sína og fólk sem hefur samþykkt að greiða hærra verð. Allir þeir sem leitað hafa til Neytendasamtakanna eiga það sameiginlegt að hafa verið boðið til fundar við FEB eftir að íbúðir þeirra fengust ekki afhentar 30. júlí sl.  

„Við höfum tjáð þá skoðun okkar við Félag eldri borgara að þótt fólk hafi samþykkt undir svona afarkostum, þá er ekkert líklegt að það haldi neins staðar, en þetta er auðvitað snúið mál og ekkert klippt og skorið,“ segir Breki.

Blokkin sem um ræðir samanstendur af 68 íbúðum fyrir eldri …
Blokkin sem um ræðir samanstendur af 68 íbúðum fyrir eldri borgara. Neytendasamtökin og FEB funda um málið síðar í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert