Málið afgreitt af miðstjórn flokksins

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Skipulagsreglur kveða skýrt á um það að berist skrifleg ósk um það frá 5.000 flokksmönnum beri miðstjórn skylda til að láta kosningu fara fram um málefnið meðal flokksmanna.“

Þetta segir Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í svari við fyrirspurn frá mbl.is vegna undirskriftasöfnunar sem Jón Kári Jónsson, formaður Félags sjálfstæðismanna í Holta- og Hlíðahverfi, ýtti úr vör í vikunni þar sem ætlunin er að virkja áðurnefnt ákvæði í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins svo fram fari atkvæðagreiðsla á meðal flokksmanna um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Mbl.is spurði Þórð með hvaða hætti mætti búast við að brugðist yrði við því tækist Jóni Kára að safna tilskildum fjölda undirskrifta og enn fremur hvort rafræn undirskriftasöfnun flokkaðist undir skriflega ósk að mati Sjálfstæðisflokksins. Svaraði Þórður því til að ef slíkt erindi bærist til miðstjórnar flokksins tæki hún það til umfjöllunar og afgreiðslu.

Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt er formaður miðstjórnar flokksins, vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert