Vatn flæðir inn í hús á Siglufirði

Vatn hefur flætt upp úr niðurföllum og jafnvel klósettum á …
Vatn hefur flætt upp úr niðurföllum og jafnvel klósettum á Siglufirði í dag. Ljósmynd/Kristín Sigurjónsdóttir/Trölli.is

Slökkviliðsmenn í Fjallabyggð hafa staðið í ströngu í allan dag við að dæla vatni sem flætt hefur inn í hús á Siglufirði. Tvær aurskriður féllu í vestanverðum Eyjafirði í nótt og í dag féllu aurskriður úr Jörundarfelli í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Uppsöfnuð úrkoma á Siglufirði síðasta sólarhringinn mælist 130 millimetrar. 

„Við höfum getað haldið þessu í algjöru lágmarki,“ segir Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, í samtali við mbl.is. 

Vatn flæddi meðal annars inn í gömlu úrabúðina við Eyrargötu …
Vatn flæddi meðal annars inn í gömlu úrabúðina við Eyrargötu á Siglufirði. Ljósmynd/Kristín Sigurjónsdóttir/Trölli.is

Minnir á vatnsveðrið 2015

Útköllin hafa verið fjölmörg og óskað hefur verið eftir aðstoð frá dælubíl að sunnan sem mun sinna eftirliti í nótt. Þá hafa hreinsibílar frá Akureyri aðstoðað við að dæla vatni úr húsum í bænum. 

Ámundi segir ástandið minna á vatnsveðrið sem gekk yfir í ágúst fyrir fjórum árum þegar mikið tjón varð í bænum þegar Hvanneyrará flæddi yfir bakka sína og ræsi höfðu ekki undan og aurborið vatn barst um götur bæjarins.„Þetta er svipað eins og það var 2015 þegar allt fór í steik. Þetta er kannski meiri úrkoma en hún nær yfir lengra tímabil.“

Uppsöfnuð úrkoma á Siglufirði síðasta sólarhringinn mælist 130 millimetrar.
Uppsöfnuð úrkoma á Siglufirði síðasta sólarhringinn mælist 130 millimetrar. Ljósmynd/Kristín Sigurjónsdóttir/Trölli.is

Bæjarbúar ósáttir við ástandið

Kristín Sigurjónsdóttir, fréttastjóri Trölla.is, segir í samtali við mbl.is að íbúar í bænum séu mjög ósáttir við ástandið þar sem lagnakerfi í bænum hafi nýverið verið endurnýjað með það í huga að koma í veg fyrir að flætt geti inn í hús. „Einn grét og annar bölvaði,“ segir Kristín, sem ræddi við bæjarbúa í dag. „Það er ekki stórstreymt og fólk skilur ekki af hverju þetta hafði ekki undan,“ bætir hún við og segir bæjarbúa ætla að krefja bæjarstjóra um svör. 

Dregið hefur úr úrkomu með kvöldinu en slökkviliðið verður með vakt í bænum í nótt. Gul viðvörun vegna úrhellisrigningar og vatnavaxta er enn í gildi hjá Veðurstofu Íslands, sem hvetur íbúa til að hreinsa vel frá ræsum og niðurföllum.

mbl.is