Hafa sinnt verkefnum vegna sæstrengs

AFP

Tvö íslensk almannatengslafyrirtæki hafa sinnt verkefnum fyrir erlenda fjárfesta sem hafa áhuga á því að leggja sæstreng fyrir rafmagn á milli Íslands og Bretlands, en mikið hefur verið rætt um slíkan sæstreng í umræðunni um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem stjórnvöld vilja að Alþingi samþykki vegna aðilar Íslands að EES-samningnum. Andstæðingar samþykktar orkupakkans segja að hún greiði götu þess að slíkur sæstrengur verði lagður en stjórnvöld hafa hafnað því.

Fjölmiðlar hafa áður fjallað um störf almannatengslafyrirtækisins KOM undanfarin ár fyrir félagið Atlantic Superconnection, en á heimasíðu félagsins kemur fram að fyrirspurnum íslenskra fjölmiðla varðandi sæstrengsverkefnið skuli beint til Friðjóns Friðjónssonar hjá fyrirtækinu. Friðjón er framkvæmdastjóri KOM og annar eiganda fyrirtækisins, en hann starfaði áður meðal annars sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Kýs að tjá sig ekki um málið

Hitt almannatengslafyrirtækið, sem heimildir mbl.is herma að hafi tekið að sér verkefni fyrir erlenda fjárfesta vegna mögulegs rafmagnssæstrengs, er Aton en framkvæmdastjóri þess og annar eigandi er Ingvar Sverrisson. Spurður um aðkomu Aton að verkefnum tengdum sæstreng segir Ingvar, sem áður starfaði meðal annars sem aðstoðarmaður tveggja ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is að hann vilji ekki tjá sig um málið.

Fjárfestirinn Edmund Truell.
Fjárfestirinn Edmund Truell.

Fleiri fyrrverandi aðstoðarmenn ráðherra starfa hjá Aton. Huginn Freyr Þorsteinsson, annar eigandi fyrirtækisins, var aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var fyrst fjármálaráðherra og síðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG, en Steingrímur er nú forseti Alþingis. Þá starfaði Elías Jón Guðjónsson sem aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar hún gegndi embætti menntamálaráðherra í sömu ríkisstjórn.

Fram kemur á vefsíðu Aton að ráðgjafar fyrirtækisins hafi „mikla reynslu og þekkingu á stjórnmálum og opinberri stjórnsýslu. Aton veitir viðskiptavinum sínum ráðgjöf og aðstoð vegna samskipta við stjórnvöld þar sem áhersla er lögð á samvinnu og skipulagða upplýsingamiðlun. Markmið ráðgjafar Aton er að finna bestu leiðirnar í samskiptum við stjórnvöld og opinberar stofnanir.“ Á vefsíðu KOM segir að sama skapi: „Fyrirtæki, samtök og hagsmunaaðilar eiga gjarnan mikið undir því að málstaður þeirra nái athygli stjórnvalda. KOM ráðgjöf hefur áralanga reynslu af því að kynna erindi viðskiptavina sinna á öllum stigum stjórnsýslunnar.“

Vantaði að fá fast orkuverð

Talsmenn stjórnvalda hafa hafnað því í tengslum við umræðuna um þriðja orkupakkann að rafmagnssæstrengur sé í kortunum. Hins vegar hafði breska dagblaðið Daily Telegraph eftir Bjarna Benediktssyni síðasta sumar að þó enn væru margar hindranir sem komast þyrfti yfir á þeirri leið að hægt yrði að leggja slíkan sæstreng myndi það auðvelda mat á því hvort rétt væri að fara í þá vinnu ef bresk stjórnvöld gætu gefið skýr svör um fast orkuverð fyrir líftíma slíks strengs.

Þá greindi breska dagblaðið Times frá því í lok maí á þessi ári að fjárfestirinn Edmund Truell, sem er einn þeirra sem stendur á bak við Atlantic Superconnection, vildi að bresk stjórnvöld veittu grænt ljós á umfangsmiklar framkvæmdir sem félag hans fyrirhugaði með það fyrir augum að gera Bretum kleift að sækja raforku til Íslands í gegnum sæstreng. Haft var eftir Truell að öll fjármögnun lægi fyrir og það eina sem skorti væri samþykki stjórnvalda til þess að hefjast handa.

Fram kom í frétt Times að gert sé ráð fyrir að fjárfestingin muni í heild hljóða upp á 2,5 milljarða punda eða sem nemur rúmum 377 milljörðum króna. Samkvæmt frétt Daily Telegraph síðasta sumar höfðu fjárfestar þá þegar varið um 10 milljónum punda, eða sem nemur um 1,5 milljarði króna, í undirbúning fyrir mögulegan sæstreng.

mbl.is