Fangi á Hólmsheiði hljóp til góðs

Fangar geta eðli máls samkvæmt ekki tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. …
Fangar geta eðli máls samkvæmt ekki tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Vistmaður í Fangelsinu Hólmsheiði lét það ekki stöðva sig og hljóp 10 kílómetra á hlaupabretti fangelsisins á sama tíma og safnaði áheitum fyrir Samhjálp. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölbreyttur hópur hljóp til góðs í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka um nýliðna helgi. Eðli málsins samkvæmt geta fangar ekki tekið þátt í hlaupinu en vistmaður í fangelsinu á Hólmsheiði lét það ekki stöðva sig. 

Greint er frá því á Facebook-síðu Fangelsismálastofnunar ríkisins að vistmaðurinn hljóp tíu kílómetra á hlaupabretti fangelsisins og safnaði á sama tíma áheitum fyrir Samhjálp. Hann bættist þannig í hóps þeirra 7203 sem hlupu tíu kílómetra í maraþoninu í ár, sem er þátttökumet í þeirri vegalengd. 

Vörður Leví Traustason, forstöðumaður Samhjálpar, tók við afrakstrinum í gær en alls safnaði vistmaðurinn 200.000 kr. „Vel gert hjá honum,“ segir í færslu Fangelsismálastofnunar og það má svo sannarlega taka undir það. mbl.is