Skoruðu á forseta Íslands að staðfesta ekki þriðja orkupakkann

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar samtakanna Orkunnar okkar funduðu með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, nú í morgun um þriðja orkupakkann og skoruðu á hann að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans inn í EES-samninginn nema að annað hvort hafi sameiginlega EES-nefndin veitt Íslandi undanþágu frá innleiðingu hans eða að íslenska þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á að undirgangast skuldbindingar orkupakkans.

Forsetinn tók við bréfi samtakanna með áskorunninni ásamt umsögnum og gögnum um málið. Um var að ræða skýrslu samtakanna um áhrif inngöngu Íslands í orkusamband ESB og minnisblöð Arnar Þórs Jónssonar héraðsdómara og Tómasar Jónssonar lögmanns.

EES-samningurinn gerir ráð fyrir deilumálum

Í minnisblaði Arnars Þórs segir meðal annars: „Óljóst er hvernig Alþingi geti samhliða áframhaldandi og vaxandi tengingu við orkukerfi ESB sett hindranir fyrir lagningu sæstrengs þannig að ESA og EFTA-dómstóllinn líti ekki á þær sem hindranir í skilningi O3 og annarra ákvæða EES-samningsins.“

Tómas Jónsson kemst að sambærilegri niðurstöðu í sínu minnisblaði og bendir á að rétt sé „að skoða til hlítar þau ákvæði EES-samningsins sem gera ráð fyrir undanþágum og lausn ágreiningsmála [...] Undanþágubeiðni á grundvelli þeirra ógnar ekki EES samstarfinu. Samningurinn gerir ráð fyrir að deilumál komi upp og geymir skýr ákvæði um hvernig skuli þá bregðast við.“

„Innleiðing orkupakkans er afar ólýðræðisleg“

Í bréfinu sem forsetinn tók við eru helstu þættir málsins raktir í stuttu máli og ítarlegur rökstuðningur færður fyrir því hvers vegna ekki sé skynsamlegt að staðfesta innleiðingu þriðja orkupakkans.

„Innleiðing orkupakkans er afar ólýðræðisleg því hún gengur þvert gegn skýrum ályktunum tveggja ríkisstjórnarflokka, gegn afstöðu meirihluta kjósenda þeirra og í raun meirihluta kjósenda í landinu. Með orkupakkanum eru stigin skref til að markaðsvæða orkukerfi landsins án þess að kjósendur hér á landi hafi fengið tækifæri til að taka afstöðu til þessarar stefnu,“ segir meðal annars í bréfinu.

Enginn ávinningur fyrir fólkið í landinu

Þar segir einnig að ríkisstjórn Íslands og meirihluti þingmanna virðist ekki hafa sinnt aðvörunum sérfræðinga né annarra og að meirihluti þingmanna virðist vera staðráðinn í því að veita ríkisstjórninni umboð til að fella þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn og skuldbinda þjóðina þar með til að innleiða íþyngjandi regluverk án nokkurs ávinnings fyrir fólkið í landinu.

„Úr því sem komið er, sjá samtökin Orkan okkar því ekki önnur úrræði í stöðunni en að skora á forseta Íslands að bíða með að staðfesta þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn þar til Ísland hefur fengið undanþágu frá innleiðingu hans eða þjóðin hefur í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á þær skuldbindingar sem í orkupakkanum felast,“ segir í niðurlagi bréfsins.

Frá afhendingu undirskrifta undir áskorun á Alþingismenn 14. maí.
Frá afhendingu undirskrifta undir áskorun á Alþingismenn 14. maí. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina