Guðna tilkynnt um 7.643 undirskriftir

Guðmundur Franklín Jónsson, forsvarsmaður synjun.is afhenti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta …
Guðmundur Franklín Jónsson, forsvarsmaður synjun.is afhenti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, bréf í morgun með tilkynningu um fjölda undirskrifta á vefnum, en þar er skorað á forsetann að hafna því að undirrita tvenn lög að sögn Guðmundar Franklíns. mbl.is/Árni Sæberg

Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, var í morgun tilkynnt að 7.643 undirskriftir hefðu safnast á synjun.is, en Guðmundur Franklín Jónsson viðskipta- og hagfræðingur fór á fund hans í morgun.

Á vefnum fer fram lifandi undirskriftasöfnun vegna áskorunar til forsetans um að beita málskotsrétti sínum skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar og synja hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi sem feli í sér „afsal á yfirráðum Íslendinga yfir náttúruauðlindum, svo sem orku vatnsaflsvirkjana og jarðhitasvæða, drykkjarvatni og heitu vatni, og afsal á stjórn innviða tengdum þeim til erlendra aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríki eða ríkjasambönd og vísa þannig lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu“.

Forsetinn tók glaður í bragði við undirskriftunum á skrifstofu forseta Íslands við Sóleyjargötu, en gaf þó ekki kost á viðtali.

Undirskriftasöfnunin er lifandi og heldur áfram 

„Það eru þessi tvenn lög, sem voru samþykkt strax eftir þingsályktunartillöguna um orkupakkann. Við biðjum hann að hafna þeim og nota 26. greinina. Hann athugar það og skrifar undir eða ekki. Það kemur í ljós,“ segir Guðmundur Franklín í samtali við mbl.is

„Hann nýtir sér kannski tækifærið og horfir til undirskrifta Orkunnar okkar í leiðinni,“ segir Guðmundur Franklín, en Orkan okkar safnaði undirskriftum undir áskorun til þingmanna um að hafna orkupakkanum þegar hann var í meðförum þingsins nýverið. „Þar var afhentur listi með 18 þúsund nöfnum. Það voru stærstu mótmælin,“ segir Guðmundur Franklín. 

„Í gærkvöldi þegar við þurftum að stoppa og fara yfir listann voru komnar nærri átta þúsund undirskriftir, en söfnunin heldur áfram alveg fram að orkupakka fjögur og orkupakka fimm. Hún breytist ekki og það bætist við hana,“ segir Guðmundur Franklín. 

Spurður út í eðli undirskriftasöfnunarinnar og þá staðreynd að fólk kunni að geta skipt um skoðun í mismunandi málum segir hann að ef vilji fólk ekki lengur vera með geti það látið vita af því með tölvupósti og þá verði undirskrift viðkomandi fjarlægð. 

En á forsetinn að synja lögunum að mati Guðmundar Franklíns, með hliðsjón af fjölda undirskriftanna og sögu synjunarvalds forsetans?

„Já, auðvitað. Þessar undirskriftir, eins og ég segi í bréfinu til hans, það erum bara við að safna undirskriftum. Síðan er það Orkan okkar þar sem eru 18 þúsund og hann veit af því, síðan eru tvær aðrar. Þetta eru á milli 35 og 40 þúsund undirskriftir sem hafa safnast á hinum ýmsu vefsíðum,“ segir Guðmundur Franklín.

Horfi til annarra safnana og skoðanakannana

Spurður hvort forsetinn eigi að taka með í reikninginn þær 18 þúsund undirskriftir sem Orkan okkar safnaði og skilaði til þingsins um að hafna orkupakkanum kveður hann já við. „Já, vegna þess að Orkan okkar hefur gefið þá yfirlýsingu út að nú eigi að skora á forsetann. Allir sem merktu við að það mætti senda þeim tölvupóst [...] geta skrifað undir það,“ segir Guðmundur Franklín. „Það getur verið að forsetinn skynji það að þeir sem hafa skorað á þingið skori á hann líka að stoppa málið, hvernig sem hann fer að því,“ segir hann og bendir einnig á skoðanakannanir. 

„Það má ekki gleyma því að 2/3 hlutar þjóðarinnar í öllum skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar hafna þessu. Þú getur eiginlega talað við hvern sem er, fyrir utan Evrópusinna. Þetta hefur hann [forsetinn] allt og ef hann á vini sem ráða honum heilt, þá yrði hann ansi vinsæll ef hann myndi neita að skrifa undir þessi lög.

Þá myndi hann gera það sem hann sagðist ætla að gera. Hann sagði það í kosningabaráttunni að honum fyndist það, ef það kæmi til inngöngu í ESB, að það ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er auðvitað liður í því að ganga í ESB. Það er verið að sneiða af pylsunni eina sneið í einu og nú er það þetta,“ segir Guðmundur Franklín og vísar til orkupakkans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert