Eyþór fer ekki í ritarann

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, hyggst ekki sækjast eftir því að verða ritari Sjálfstæðisflokksins. Þetta tilkynnir hann á facebooksíðu sinni. Áður hafði Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, lýst því sama yfir en hún var líkt og Eyþór að skoða mögulegt framboð. Þá hefur nafn Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, verið nefnt í umræðunni um hugsanlega frambjóðendur en hún segir í samtali við mbl.is að hún sé framkvæmdastjóri sveitarfélags og sé ekki á leiðinni út í stjórnmálin.

„Fyrir mér snýst hugsjón Sjálfstæðisflokksins um tilverurétt allra og frelsi einstaklingsins. Ég gaf kost á mér til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík snemma á síðasta ári og fékk til þess skýrt umboð 61% sjálfstæðismanna í borginni. Í borgarstjórnarkosningum fengum við yfir 30% atkvæða og erum aftur stærsti flokkurinn í Reykjavík, í fyrsta sinn í tólf ár. Við ætlum að ná enn betri árangri og auka við fylgi flokksins í næstu kosningum,“ segir Eyþór.

Krefst einbeitingar og fullrar athygli

„Nauðsynlegt er að nýjum ritara verði falið að efla tengslin milli grasrótar og forystu, vinna að því sem sameinar okkur sjálfstæðismenn og leita sátta í ágreiningsmálum. Þessi vegferð verður krefjandi og útheimtir tíma og athygli þess sem mun gegna því. Ég er þakklátur fyrir það traust og þá velvild sem grasrótin í flokknum um allt land hefur sýnt mér. Ég hef fengið fjölda símtala og hvatningu frá traustu sjálfstæðisfólki. Það mikla verkefni að leiða Sjálfstæðisflokkinn áfram og upp á við er þess eðlis að það krefst einbeitingar og fullrar athygli,“ segir hann ennfremur í yfirlýsingu sinni.

„Ég tel að það gagnist borgarbúum best að ég sé óskiptur í því verki sem ég tók að mér á síðasta ári. Því hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins. Það er nauðsynlegt að sjálfstæðismenn taki höndum saman í því að styrkja og efla flokkinn okkar. Ég vona að nýjum ritara auðnist að sameina sjálfstæðismenn um allt land þannig að flokkurinn blómstri sem aldrei fyrr.“

mbl.is