Þarf að innheimta 200 milljónir umfram rekstrarkostnað

Lögreglan á Norðurlandi vestra telur sig hafa verið ofrukkaða um …
Lögreglan á Norðurlandi vestra telur sig hafa verið ofrukkaða um 190% vegna leigu á lögreglubifreiðum á tæplega þriggja ára tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt lögum um opinber fjármál og framsetningu fjárlaga er ríkislögreglustjóra skylt að innheimta árlega 200 milljónir króna umfram rekstrarkostnað í ríkissjóð. Á síðastliðnum þremur árum nemur upphæðin um 600 milljónum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra, en tilefnið er umfjöllun Stöðvar 2 um bílamiðstöð ríkislögreglustjóra frá í gærkvöldi.

Þar segir að mikill mismunur sé á rekstrarkostnaði embættis ríkislögreglustjóra vegna lögreglubíla og þess hve mikið lögregluumdæmin hafi þurft að greiða bílamiðstöð. Til að mynda telji lögreglan á Norðurlandi vestra sig hafa verið ofrukkaða um 190% vegna leigu á lögreglubifreiðum á tæplega þriggja ára tímabili.

„Vegna þeirra breytinga sem fólust í reikningsskilum ríkisaðila og áhrifa þeirra á bílareksturinn var það niðurstaða ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra að ekki væru forsendur fyrir áframhaldandi rekstri og lögðu þeir til við dómsmálaráðuneytið að rekstur bílamiðstöðvar yrði aflagður. Á þetta féllst ráðherra í júlí sl. Skilanefnd starfar að uppgjöri sjóðsins,“ segir jafnframt í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

mbl.is