Ákvörðunin tekin í júlí

mbl.is/Eggert

Greint var frá því 5. júlí að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra yrði lögð niður og því rangt að ákvörðun um það hafi verið tekin í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra.

Þar segir enn fremur að um hafi verið að ræða sameiginlega tillögu ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranna að leggja til við dómsmálaráðuneytið að bílamiðstöðin yrði lögð niður. Hún verður lögð niður um áramót; ágreiningslaust.

Dómsmálaráðuneytið hefur skipað vinnuhóp sem hefur það verkefni að gera tillögu um framtíðarskipulag hvað varðar ökutækjarekstur lögreglunnar. Málið er því þegar í höndum dómsmálaráðuneytisins sem leiðir vinnu við að móta framtíðarstefnu með aðkomu ríkislögreglustjóra og fulltrúa lögreglustjóra,“ segir í tilkynningunni. Æskilegt væri að landssamband lögreglumanna kæmi þar að málum.

Ríkislögreglustjóri hafði frumkvæði að því í júní að óska eftir stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á rekstri bílamiðstöðvar og áhrifum innleiðingar nýrra laga um opinber fjárlög á reksturinn.

Dómsmálaráðuneytið tók undir sjónarmið ríkislögreglustjóra um að fram færi slík stjórnsýsluúttekt og lagði til að í ljósi þess að mörg verkefni hefðu verið að færast til embættisins samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins væri rétt að láta stjórnsýsluúttektina ná til embættisins í heild. Afstaða ráðuneytisins til óska ríkislögreglustjóra um stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda lá því þegar fyrir í júní og er beðið eftir niðurstöðu ríkisendurskoðanda varðandi beiðni embættisins, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.

Auk þess óskaði ríkislögreglustjóri eftir því við ríkisendurskoðanda að taka til skoðunar heimildir lögreglu til að taka á leigu ökutæki hjá bílaleigum og nota þau sem merktar lögreglubifreiðar búnar til forgangsaksturs. Dómsmálaráðuneytið taldi hins vegar ekki þörf á því að ríkisendurskoðandi fjallaði sérstaklega um lögmæti þess,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er bent á að Ríkiskaup eru með fataútboð fyrir lögreglu í vinnslu. Beðið er upplýsinga frá einstökum lögreglustjórum um magn svo hægt verði að setja útboðið af stað en búist er við því að það verði innan tveggja vikna.

mbl.is