Samkomulag um samgöngur enn óundirritað

mbl.is/Arnþór

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára, þ.e. til og með ársins 2033, er enn óundirritað þrátt fyrir að til hafi staðið að undirrita það í vikunni.

Efni samkomulagsins var til kynningar af hálfu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir sveitarstjórnarfólk á höfuðborgarsvæðinu og þingmenn ríkisstjórnarflokka í vikunni, en trúnaður gildir um efni þess fram til undirritunar.

Í fréttaflutningi af málinu hefur komið fram að veggjöld muni standa undir um helmingi af þeim framkvæmdum sem um er fjallað í samkomulaginu. Meðal framkvæmdanna eru fyrstu áfangar borgarlínu, framkvæmdir við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar og framkvæmdir við að leggja Miklubraut í stokk milli Kringlumýrarbrautar og Rauðarárstígs. Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við stokk á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ og stokk á Sæbraut milli Vesturlandsvegar og Holtavegar.

Efasemdir í Sjálfstæðisflokki

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tafði það fyrir afgreiðslu málsins að kynning á því þótti gróf og fannst þingmönnum sumum hverjum að ýmsir þættir væru óútfærðir og illa kynntir, t.d. hvernig veggjald yrði innheimt. Málið væri sett fram í þannig búningi að ekki rynni vel ofan í þingmenn.

Einkum var það í þingflokki sjálfstæðismanna sem vart varð við athugasemdir af þessum toga og efasemdir. Einn þingmaður sagði í samtali við Morgunblaðið að málið væri af þeirri stærðargráðu að það þyrfti að leggjast yfir það til þess að þingmenn gætu tjáð sig um það eða haft miklar skoðanir á því. Í það minnsta þyrftu þingmenn í Reykjavík að skoða málið mjög vel. Færri athugasemdir í þessa veru munu hafa komið úr þingflokkum Framsóknarflokks og Vinstri-grænna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »