1,3 milljónir á bílaleigubílum

mbl.is

Sífellt fleiri erlendir ferðamenn nýta sér bílaleigubíla á ferðum um landið og er nú áætlað að í fyrra hafi um 1,3 milljónir ferðamanna nýtt sér bílaleigubíla hér á landi en um 960 þúsund árið 2016.

Ætla má að 7,2 sinnum fleiri ferðamenn hafi nýtt sér bílaleigubíla á síðasta ári en á árinu 2010. Þeir erlendu gestir sem notuðu bílaleigubíla í fyrra óku að meðaltali um 1.562 kílómetra þann tíma sem þeir leigðu bílana.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ágripi að skýrslu fyrirtækisins Rannsóknir & ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) um erlenda ferðamenn og hringveginn 2010-2018, sem birt er á vefsíðu Vegagerðarinnar. Um er að ræða ítarlega greinargerð með miklu magni upplýsinga um erlenda ferðamenn á hringveginum og notkun þeirra á bílaleigubílum o.fl., sem er m.a. byggð á svonefndri Dear visitors-könnun RRF meðal ferðamanna.

Fram kemur að um 60% erlendra gesta nýttu sér bílaleigubíla í Íslandsheimsóknum á árinu 2018 og er áætlað að þeir hafi ekið þeim alls um 660 milljónir kílómetra á Íslandi á því ári. Það samsvarar meðalakstri um 56 þúsund heimilisbíla á Íslandi miðað við 12 þúsund km akstur á ári. „Í lok árs 2018 voru um 252 þúsund skráðir fólksbílar á landinu í eigu Íslendinga eða um 0,72 bílar á hvern íbúa. Samkvæmt þessu má áætla akstur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum árið 2018 um 22% af öllum einkaakstri Íslendinga það ár.

Ef miðað er við 8 lítra meðaleyðslu bílanna á hverja 100 km og eldsneytisverð að jafnaði 200 kr. á lítra má lauslega slá á að eldsneytisútgjöld erlendra ferðamanna vegna aksturs á bílaleigubílum á Íslandi árið 2018 hafi numið um 10,6 milljörðum króna. Þar af fer yfir helmingur til ríkisins,“ segir m.a. í kafla þar sem niðurstöður eru dregnar saman.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert