„Baráttan byrjar hjá okkur sjálfum“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nótt. Ljósmynd/UNTV

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á baráttuna gegn hlýnun jarðar, mannréttindi og endurbætur á alþjóðakerfinu í samræmi við grunngildi Sameinuðu þjóðanna í ræðu sem hann flutti á allsherjarþinginu í nótt.

Utanríkisráðherra ræddi einnig óöldina í Sýrlandi og Jemen og skoraði á þau ríki sem ýta undir ófriðinn að beita sér frekar fyrir friði. 74. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í New York en Guðlaugur Þór ávarpaði þingið rétt fyrir klukkan eitt að íslenskum tíma í nótt.

„Baráttan gegn hlýnun jarðar byrjar hjá okkur sjálfum. Ríku löndin verða hins vegar að aðstoða þau sem minna eiga við að takast á við orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Þetta er eitt helsta áhersluatriðið í nýrri þróunarsamvinnustefnu Íslands,” sagði utanríkisráðherra og greindi um leið frá því að ríkisstjórn Íslands ætlaði að tvöfalda framlög sín í Græna loftslagssjóðinn.

Guðlaugur lagði áherslu á baráttu gegn hlýnun jarðar.
Guðlaugur lagði áherslu á baráttu gegn hlýnun jarðar. Ljósmynd/UNTV

Utanríkisráðherra áréttaði svo á að jafnrétti kynjanna væri ein lykilforsenda þeirrar velgengni sem Ísland ætti að fagna. „Hér erum við hins vegar ekki í samkeppni heldur eru markmið okkar þau sömu: Að tryggja að konur fái hvarvetna notið möguleika sinna og að vinna að sjálfbærri þróun sem lætur engan undanskilinn.”

mbl.is

Bloggað um fréttina