Hjúkrunarfræðingar „bíða ekki endalaust“

„Krísan er nú þegar komin með skortinum á hjúkrunarfræðingum. Inni ...
„Krísan er nú þegar komin með skortinum á hjúkrunarfræðingum. Inni á Landspítala eru deildir sem eru mjög undirmannaðar fyrir. Áhyggjur yfirstjórnar Landspítala eru algjörlega til staðar yfir því hvernig eigi að halda uppi þjónustunni,“ segir Guðbjörg. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir hjúkrunarfræðinga órólega yfir fyrirhuguðum niðurskurðaraðgerðum á Landspítalanum. Meðal þess sem á að gera er að svipta hjúkrunarfræðinga sérstökum álagsgreiðslum.

„Ár eftir ár er ráðist í niðurskurðaraðgerðir. Það að við getum tryggt öryggi þjónustunnar, hvað þá gæði þeirrar þjónustu sem við viljum veita, set ég spurningarmerki við. Þetta heldur áfram að fara niður á við svo ég spyr hvað það er sem heldur og hvað það er sem sleppir,“ segir Guðbjörg.

Hún telur vöntun á raunhæfu samtali milli ríkisins og Landspítalans. „Það þýðir ekki fyrir ríkið að benda á yfirstjórn Landspítalans og yfirstjórn Landspítalans að benda á ríkið. Það er vitlaust gefið eins og fram kemur þarna. 70% af rekstrarkostnaði Landspítalans er launakostnaður, það er vitað og hefur það verið sú stærð í mörg herrans ár.“

Formaður Læknafélags Íslands sagði í gær að ein helsta ástæðan fyrir rúmlega fjögurra milljarða halla á rekstri Landspítalans sé sú að hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum hafi verið gert sérstaklega hátt undir höfði.

Þau sérstöku kjör sem hjúkrunarfræðingar hafa fengið nýlega eru álagsgreiðslur í gegnum svokallað Hekluverkefni. Var því komið á til að fást við langvar­andi mönn­un­ar­vanda á spít­al­an­um. Til stendur að leggja þetta kerfi af.

Guðbjörg er ósammála því að þessar greiðslur eigi stóran hlut í halla spítalans.

„Til þess  að reyna að halda fólki í starfi þá fór Landspítalinn út í þessar aukagreiðslur sem ég ætla að taka fram að eru ekki háar. Það er aldeilis ekki rétt að þær séu að setja Landspítalann á hliðina.“

Kjarasamningur lækna eigi sér enga hliðstæðu

Hún bendir á að kjarasamningur lækna sem gerður var fyrir fjórum árum hafi verið kostnaðarsamur. „Hann á sér enga hliðstæðu í kjarasamningsumhverfinu á Íslandi og hann kostar spítalann hálfan milljarð á ári. Þarna eru margfalt færri einstaklingar undir heldur en hvað varðar hjúkrunarfræðinga.“

Guðbjörg ítrekar að álagsgreiðslurnar séu takmarkaðar.

„Þetta eru engar stórar upphæðir og eru ekki upphæðir af þeim toga að þær einar  og sér myndu halda hjúkrunarfræðingum í starfi þótt þær kæmu inn aftur. Fyrir voru hjúkrunarfræðingar lægra launaðir en sambærilegar stéttir. Stéttir með sambærilega menntun og álag. Það er ekki nóg að setja þessar álagsgreiðslur inn aftur. Það þarf að leiðrétta þetta í grunninn. Það þýðir ekki að leiðrétta alltaf miðað við síðustu stöðu, það er alltaf misskilningurinn. Þarna skín í gegn hvernig þetta þjóðfélag er. Þetta er 97% kvennastétt og þannig er nálgunin í rauninni. Það þarf eitthvað mikið að gerast í þessum kjarasamningsviðræðum til þess að það gerist ekki eitthvað alvarlegt.“

Hjúkrunarfræðingar hafa nú staðið í kjaraviðræðum við ríkið í tæpa sjö mánuði.

„Hjúkrunarfræðingar eru mjög órólegir þar sem búið er að ákveða að taka þessar álagsgreiðslur af þeim og bíða í ofvæni eftir því hvað gerist í þessum samningaviðræðum en þeir bíða ekki endalaust.“

Enn sést ekkert til sólar í kjaraviðræðunum.

„Hjúkrunarfræðingar eru langfjölmennasta heilbrigðisstéttin á Íslandi og sú langfjölmennasta sem starfar á Landspítalanum. Það má aldrei tala um það. Ef það á að gera eitthvað í launum, sama hvort það er í kjarasamningum eða stofnanasamningum gagnvart hjúkrunarfræðingum þá hlýtur það að kosta. Það gefur auga leið.“

Nú þegar krísa á spítalanum

Guðbjörg segir skiljanlegt að hjúkrunarfræðingar vilji ekki vinna í íslensku heilbrigðiskerfi.

„Þegar viðmótið er svona, þegar samningsviljinn er ekki meiri. Þetta er bara fólk, þetta er atvinnan þeirra og fólk þarf vinnu og menntun hjúkrunarfræðinga er bara mjög góð og þeir geta fengið vinnu víða.“

Að mati Guðbjargar er nú þegar krísa á spítalanum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Meðal aðhaldsaðgerða sem spítalinn boðar er að ekki verði ráðið í vissar stöður sem losna.

„Krísan er nú þegar komin með skortinum á hjúkrunarfræðingum. Inni á Landspítala eru deildir sem eru mjög undirmannaðar fyrir. Áhyggjur yfirstjórnar Landspítala eru algjörlega til staðar yfir því hvernig eigi að halda uppi þjónustunni. Svo er þetta bara spurning fyrir hvern og einn starfsmann hvort hann ætli að vinna í þessu starfsumhverfi eða ekki,“ segir Guðbjörg sem tekur fram að hjúkrunarfræðingar séu ekki skyldugir til að vinna innan íslensks heilbrigðiskerfis. 

mbl.is