Hlýtur að vekja athygli og umhugsun

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég geri mér að sjálfsögðu vissar vonir um það að þetta hjálpi til við að ýta á það að þessi mál verði skoðuð á þessum vettvangi. Mér finnst það eiga heima þar í báðum tilvikum.“

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is, en Steingrímur sendi í gær forseta Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og forseta Evrópuráðsþingsins bréf þar sem hann lýsir áhyggjum af ellefu og hálfs árs fangelsisdómi, sem og löngu gæsluvarðhaldi meðan á málaferlum stóð, sem Carme Forca­dell, fyrrverandi forseti Katalóníuþings, fékk fyrr í mánuðinum. Ekki síst með hliðsjón af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Forcadell er einn níu leiðtoga aðskilnaðarsinna í Katalóníu sem hlutu þunga dóma í hæstarétti Spánar 14. október, en alls voru nímenningarnir dæmdir í meira en 100 ára fangelsi samanlagt. Mikil mótmæli blossuðu upp í Barcelona í kjölfarið.

Carme Forcadell, fyrrverandi forseti þings Katalóníu á Spáni.
Carme Forcadell, fyrrverandi forseti þings Katalóníu á Spáni. AFP

Steingrímur segir að það væri að hans mati eðlilegt að þessir tveir aðilar færu alla vega yfir málið. Til að mynda hefði það oft verið notað Alþjóðaþingmannasambandinu til réttlætingar að það stæði sérstaklega vörð um stöðu kjörinna fulltrúa og fylgdist með því að þeir væru ekki beittir harðræði. Ekki þyrfti síðan að ræða hversu mikilvægt Evrópuráðið og þing þess væri þegar kæmi að mannréttindum og þingræðismálum.

Þingforsetar Evrópuráðsríkjanna munu hittast í Strasbourg í Frakklandi í lok vikunnar og segist Steingrímur aðspurður vissulega vonast til þess að málið verði rætt þar. „Mér fannst ágætt að bréfið væri þá farið á undan. Við skulum annars sjá til. Ég er alla vega búinn að senda þetta bréf,“ segir Steingrímur.

„Þetta er auðvitað afar óvenjulegt“

„Þetta er auðvitað afar óvenjulegt,“ segir Steingrímur enn fremur um fangelsisdóm Forca­dell. „Ég held mig annars auðvitað bara við fyrst og fremst það sem snýr að forseta þingsins og blanda mér bara í málið á þeim forsendum. Þarna er náttúrulega kjörið þing og síðan kjörinn forseti og eins og ég þekki þetta þá var hún fyrst og fremst að gegna sínu hlutverki sem slík og taka á dagskrá þau mál sem fyrir þingið voru lögð.“

Hægt sé að hafa sína skoðun á þeim þingmálum sem um ræðir en Steingrímur segist hvergi hafa séð neitt sem bendi til þess að Forca­dell hafi í störfum sínum sem þingforseti gert neitt annað en það sem þingforsetar almennt geri.

„Það er að stjórna þinginu og umræðum um mál sem fyrir það eru lögð. Það hlýtur að vekja verulega athygli og mikla umhugsun að svo allt í einu sé slík manneskja dæmd í ellefu og hálfs árs fangelsi. Ég verð bara að segja að mér þykir það sæta þvílíkum tíðindum að eitthvað hljóti menn nú að velta því fyrir sér,“ segir hann.

Steingrímur rifjar upp að hann hefði áður skrifað forsetum bæði efri og neðri deildar spænska þingsins. „En það hefur sjálfsagt ekki haft mikið upp á sig en sjáum til hvort þetta ýti við einhverjum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert