Enn einn læknirinn segir upp

Yfirlæknir taugasviðs Reykjalundar hefur sagt upp störfum og er þar með sjötti læknirinn sem segir upp störfum þar. Sá fyrsti sagði upp störfum í ágúst og er sú uppsögn ótengd hinum fimm, sem eru vegna óánægju með störf stjórn­ar SÍBS. 

Í yfirlýsingu frá teymisstjórn deildarinnar segir að staðan sé grafalvarleg, þar hafi verið traust og þétt samstarf, en atburðarás undanfarinna vikna hafi sett starfsemi taugasviðs í uppnám.

Auk þess er 50% staða læknis laus á sviðinu, að því er fram kemur í yfirlýsingu teymisstjórnarinnar.

„Staðan er grafalvarleg. Á taugasviði Reykjalundar hefur ríkt mikið traust og þétt samstarf, en þar starfa sérfræðingar á sviði þverfaglegrar taugaendurhæfingar með mikla reynslu og þekkingu. Teymið sinnir sérhæfðri, flókinni meðferð viðkvæmra sjúklingahópa, svo sem sjúklingum með ákominn heilaskaða, langvinna taugasjúkdóma, taugakerfisröskun og meðfædda fötlun. Atburðarás síðustu vikna hefur valdið mikilli óánægju og sett starfsemi taugasviðs í uppnám. Áhrifin eru nú þegar farin að koma fram,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við biðlum til Heilbrigðisyfirvalda [sic] að grípa strax inn í stöðuna með öllum tiltækum ráðum til þess að tryggja áframhaldandi sérhæfða taugaendurhæfingu á Reykjalundi,“ segir þar enn fremur.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is