Nýtt rekstrarfélag stofnað um Reykjalund

Gunnar Ármannsson, Anna Stefánsdóttir, Pétur Magnússon, Haraldur Sverrisson og Arna …
Gunnar Ármannsson, Anna Stefánsdóttir, Pétur Magnússon, Haraldur Sverrisson og Arna Harðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Starfsstjórn Reykjalundar, sem tilnefnd var af heilbrigðisráðherra í nóvember 2019, kynnti starfsfólki Reykjalundar framtíðarfyrirkomulag stjórnunar endurhæfingarmiðstöðvarinnar á fundi í dag.

Meðal annars var nýtt skipurit kynnt, sem unnið var í samráði við starfsfólk og tekur gildi 1. júní, að því er fram kemur í tilkynningu.

Á fundinum kom fram að stofnað hafi verið sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi, en um er að ræða óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem verður óháð stjórn SÍBS.

Stjórn hins nýja hlutafélags skipa þau Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, formaður, Gunnar Ármannsson lögmaður, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og varamaður er Arna Harðardóttir sjúkraþjálfari.

„Að loknu þessu sex mánaða tímabili starfsstjórnar Reykjalundar er ég sannfærður um að við höfum fundið mjög farsæla lausn og að framtíðin er björt fyrir Reykjalund og endurhæfingarþjónustu í landinu. Á Reykjalundi er metnaðarfullt fagfólk og með þessum breytingum er stigið stórt skref til að tryggja að Reykjalundur verði áfram í fararbroddi á endurhæfingu í íslensku heilbrigðiskerfi,“ er haft eftir Stefán Yngvasyni, formanni starfsstjórnar.

mbl.is