„Ýmsar hrókeringar“ í starfsmannamálum

Ráðið hefur verið í tvær stöður yfirlækna á Reykjalundi.
Ráðið hefur verið í tvær stöður yfirlækna á Reykjalundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm læknar sem sögðu upp störfum á Reykjalundi vegna óánægju fyrr í haust hafa dregið uppsagnir sínar til baka. Auk þess hafa tveir læknar í fullum stöðum minnkað við sig og verða í hlutastarfi. Einn hefur ekki dregið uppsögn sína til baka. 

Ráðið hefur verið í tvær stöður yfirlækna. Yfirlæknir hjartasviðs hóf störf í dag og yfirlæknir geðheilsusviðs tekur til starfa í febrúar. Ekki hefur verið ráðið í hálft starf framkvæmdastjóra lækninga eftir að Ólafur Þór Ævarsson sagði upp því starfi í haust. Stefán Yngva­son, end­ur­hæf­ing­ar­lækn­ir og formaður starfs­stjórn­ar­ Reykjalundar, segist ekki ætla að gegna þeirri stöðu.     

„Það eru ýmsar hrókeringar í gangi,“ segir Stefán spurður um starfsmannamál. Unnið er að því hörðum höndum að skipuleggja starfsemina, að því sögðu getur hann ekki tilgreint nákvæmlega hversu mörg stöðugildi eru laus og verði auglýst. 

„Þetta er stórt verkefni og þessir læknar eru ekki á hverju strái. Það eru fáir sem geta gengið í þessi störf beint af götunni ef svo má segja. Ég reikna með að við auglýsum á nýju ári,“ segir Stefán. 

Reykjalundur er með þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands. Samningurinn rann út nýverið en var framlengdur til 1. mars á meðan ný starfsstjórn sinnir sínu hlutverki. Stefán segir skilning ríkja á milli þessara stofnana um mikilvægi þess að samningurinn sé framlengdur á meðan starfsstjórnin vinnur sína vinnu. 

Stefán segir vinnuna ganga vel og almennt ríki sátt um störf starfsstjórnarinnar. Hann nefnir sem dæmi um gott samstarf að einn starfandi læknir á Reykjalundi minnkaði við sig niður í hálft starf og tók við starfi Stefáns á endurhæfingardeildinni á Grensás. Hann gerði það svo Stefán gæti tekið sæti í starfsstjórn Reykjalundar sem heilbrigðisráðherra skipaði tímabundið. „Þetta sýnir samstilltan hóp lækna í þessum geira sem hefur alltaf hjálpast að,“ segir Stefán.   

mbl.is