Breytti „nauðugur“ um nafn að næturlagi

Ágúst Guðjónsson, áður Ágúst Aron Guðjónsson, þvertekur fyrir að óminnishegrinn …
Ágúst Guðjónsson, áður Ágúst Aron Guðjónsson, þvertekur fyrir að óminnishegrinn hafi ráðið för í nótt, þegar hann ákvað að breyta nafni sínu í þjóðskrá í samráði við vin sinn Jakob Birgisson uppistandara, til hægri á mynd. Ljósmynd/Aðsend

Það eru engir flugeldar, engin sérstök upphefð, engir stælar í nýju nafni Ágústs Guðjónssonar laganema. Þetta er einföld íslenska: Ágúst Guðjónsson. Síðustu 19 ár var það hins vegar Ágúst Aron Guðjónsson, einum Aron-i ofaukið alla tíð, að mati nafnberans. Sú tíð er liðin. Í gærnótt breytti hann nafni sínu í þjóðskrá, með fjárhagslegum atbeina vinar á vinnumarkaði.

„Ég segi náttúrulega bara allt það besta,“ segir Ágúst Guðjónsson í samtali við mbl.is þennan laugardagsmorgun. „Ég er náttúrulega nýr maður, með nýtt nafn!“ Það var löngu tímabært að stíga skrefið og var það gert af margþættum ástæðum, sem höfðu gerjast innra með honum um árabil.

Nefndur vinur á vinnumarkaði, sem borgaði fyrir nafnbreytinguna, var Jakob Birgisson uppistandari. Eins og Ágúst lýsir því sátu þeir í gær aftaninn vetrarlangan heima hjá Ágústi. Töluvert eftir miðnætti barst talið að nöfnum, eins og oft áður, en nú einkum og sér í lagi að nafni Ágústs, þá Ágústs Arons. Þótti Jakobi þá nóg um fögur fyrirheit, umræðuefnið var margþvælt, og vildi láta kné fylgja kviði. Svo var honum í mun um að Ágúst léti verða af þessu að hann bauðst til þess að borga breytinguna sjálfur. 9000 þúsund kall fyrir breytinguna í þjóðskrá, en síðan þarf auðvitað að panta nýtt ökuskírteini og vegabréf. Jakob mun bera þann kostnað, sem líklega skiptir tugum þúsunda.

Afarkostir: Ágúst Aron eða Ágústa

„Mér hefur aldrei þótt fallegt að hafa tvö eiginnöfn, alltént alls ekki í mínu tilfelli. Mér fannst þetta asnaleg samsetning,“ segir Ágúst. Svo einfalt var það.

Hann lýsir því þá að flestum sem bera þennan kross, að bera hvimleitt millinafn, bjóðist sá kostur að smætta bara nafnið niður í bókstaf og punkt, að skammstafa það. Þegar hann gerði það, hins vegar, gekk það ekki alveg upp. Útkoman var Ágúst A., borið fram Ágústa, kvengerving sem að mati Ágústs skapaði óþarfa tvíræðni. 

„Mér var því sá nauðugur kostur einn að kippa þessu út, ég neyddist hálfvegis til þess. Ég sé ekki eftir nafninu. Það er til dæmis enginn í ættinni sem heitir þessu nafni, það er bara út í bláinn og bætir litlu við persónu mína. Ágúst er sterkt nafn og stendur vel eitt og sér,“ segir Ágúst. Grundvöllur verði að vera fyrir svona millinöfnum og svo var því ekki farið í hans tilfelli, segir hann. 

Ágúst seg­ir að þegar hafi hann kunn­gert foreldrum sín­um breyt­ing­una og að þau hafi brugðist hin bestu við. Hann ger­ir ekki ráð fyr­ir miklu mót­læti, enda þessi ásetn­ing­ur hans mönn­um kunn­ur, að losa sig við þetta sem hann kall­ar „tísk­u­nafn“ frá síðustu alda­mót­um.

Ágúst Guðjónsson, 19 ára, útskrifaðist úr MR síðasta vor og …
Ágúst Guðjónsson, 19 ára, útskrifaðist úr MR síðasta vor og nemur nú lögfræði við Háskóla Íslands. Hann er bóksali í hlutastarfi í Eymundsson. Ljósmynd/Aðsend

Tvö nöfn einu of mikið

„Alveg tvímælalaust“ hvetur Ágúst aðra sem heita Aron en vilja ekki heita Aron til þess að ráðast í þessar breytingar gagnvart ríkisvaldinu. Það er ekki lengi gert, samanber að Ágúst og Jakob gengu frá málinu netleiðis í einum hvelli í gær, seint á föstudagskvöldi. Meiriháttar ákvarðanir á föstudagskvöldi vekja óhjákvæmilega upp hugrenningartengsl við áfengi en að sögn Ágústs fór þetta síður en svo fram í ölæði, var öllu heldur niðurstaða ígrundaðrar íhugunar. Ef óminnishegrinn kom þá við sögu, var það lítillega, og réð hann ekki úrslitum. 

Jakob Birgisson uppistandari er vinur Ágústs. Hann fjármagnaði nafnbreytingu vinar …
Jakob Birgisson uppistandari er vinur Ágústs. Hann fjármagnaði nafnbreytingu vinar síns í nafni fagurfræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jakob Birgisson fjármagnaði þetta af fagurfræðilegum ástæðum, segir hann í stuttu samtali við mbl.is. „Ég hef aldrei dregið dul á þá sannfæringu mína að tvö nöfn eru einu nafni of mikið. Mér fannst liggja beinast við í gær að leggja Ágústi vini mínum lið, þar sem ég er vinnandi maður en hann í námi, og mér þótti málstaðurinn vægast sagt verðugur. Ágúst Guðjónsson er kjarngott og undurfagurt nafn. Það segir allt sem segja þarf, og enginn Aron þarf þar að koma við sögu,“ segir Jakob.

Jakob setur ákveðið spurningarmerki við það að kostnaðurinn við þessa aðgerð sé eins hár, 9000 krónur. „Það finnst mér svolítið sérstakt. Síðan hvenær greiðir maður fyrir að gera öðrum greiða, í þessu tilfelli stjórnsýslunni? Við erum að einfalda þeim lífið, en ekki að bæta við einhverju uppdiktuðu ónefni,“ segir Jakob.

Ágústi Guðjónssyni skilst að maður geti aðeins breytt nafni sínu einu sinni í þjóðskrá að „ástæðulausu“, eins og hann hefur gert. Ef maður vill endurtaka leikinn skuli rökstuðningur fylgja: Það verður að „standa sérstaklega á.“ Honum finnst mönnum með því allmiklar hömlur settar og vildi frekar sjá aukið frelsi í þessum málum. „Þetta er svolítið loðið. Hvað þýðir það í stjórnsýslu, að 'sérstaklega standi á'?“ spyr laganeminn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert