„Reykjalundur er ekki eyland“

Áður fyrr átti hið opinbera sæti í stjórn Reykjalundar. Svandís …
Áður fyrr átti hið opinbera sæti í stjórn Reykjalundar. Svandís segir að það sé ekki til skoðunar að ríkið fái aftur sæti þar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að ríkið geti í raun ekki gripið inn í rekstur Reykjalundar nema með því að óska eftir upplýsingum frá SÍBS um stöðuna á Reykjalundi í gegnum Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) en það hefur heilbrigðisráðuneytið nú þegar gert. Hún telur óheppilegt að þjónusta Reykjalundar standi á ótraustum grunni. 

<p>„Það liggur ekki fyrir að það sé nokkur önnur leið fær þar sem um er að ræða félagasamtök [SÍBS] sem eru að veita þjónustu á grundvelli samnings. Reykjalundur er ekki eyland og það hefur mikil áhrif á heilbrigðiskerfið í heild ef málin stefna þar í óefni,“ segir Svandís. </p>

Alls hafa tíu lækn­ar sagt upp störf­um á Reykjalundi frá því í sum­ar. Níu af þeim sögðu upp ný­verið vegna óánægju með með af­skipti SÍBS af rekstri Reykjalund­ar en einn sagði upp í sum­ar af ótengd­um ástæðum. 

„Óheppilegt“ að þjónustan standi á veikum grunni

Svör við fyrirspurn SÍ um stöðuna á Reykjalundi hafa nú borist frá SÍBS. Svandís hafði ekki náð að líta á þau þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hana. 

„Við þurfum og stefnum að því að setjast yfir svörin sem berast bæði til Sjúkratrygginga og landlæknis við þeim spurningum sem voru lagðar fram. Vonandi skýrist myndin því það er nauðsynlegt að finna ásættanlega lausn fyrir sjúklinga í þessu máli.“

Spurð hvort það sé ekki óeðlilegt að félagasamtök hafi svo mikil völd yfir þeirri grundvallarheilbrigðisþjónustu sem veitt er á Reykjalundi segir Svandís:

„Það er að minnsta kosti mjög óheppilegt að svona mikilvæg þjónusta standi ekki á traustari grunni en hér hefur komið fram.“

Áður fyrr átti hið opinbera sæti í stjórn Reykjalundar. Svandís segir að það sé ekki til skoðunar að ríkið fái aftur sæti þar. 

„Það var í raun umbúnaður sem var á sínum tíma áður en lög um Sjúkratryggingar Íslands tóku gildi. Um leið og við erum farin að semja á grundvelli þeirra laga þá telst ríkið vera beggja vegna borðsins ef það er bæði að semja fyrir hönd ríkisins frá borði Sjúkratrygginga Íslands og svo líka með fulltrúa í stjórninni hinu megin þannig að það er ástæðan fyrir því að það var horfið frá því fyrirkomulagi.“

mbl.is