SÍBS vill að Svandís tilnefni starfsstjórn yfir Reykjalundi

Stjórn SÍBS vill að heilbrigðissráðherra skipi starfsstjórn yfir Reykjalundi.
Stjórn SÍBS vill að heilbrigðissráðherra skipi starfsstjórn yfir Reykjalundi. mbl.is/Eggert

Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, SÍBS, hefur ákveðið að óska eftir því við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að hún „hlutist til um að sérstök starfsstjórn verði sett á laggirnar til þess að fara með málefni Reykjalundar meðan unnið verði að því að aðgreina rekstur endurhæfingar að Reykjalundi frá annarri starfsemi og eignum SÍBS og koma yfir reksturinn varanlegri stjórn.”

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn SÍBS, sem segist ávallt hafa hagsmuni sjúklinga og faglegt starfsumhverfi Reykjalundar sem miðstöðvar þverfaglegrar endurhæfingar á Íslandi efst í huga.

Í tilkynningunni segir einnig að þing SÍBS hafi samþykkt í október í fyrra að hefjast handa við endurskoðun stjórnskipulags samtakanna.

„Síðan þá hefur verið unnið að breytingaferli sem að lokum mun taka til allra sviða starfsemi SÍBS. Aukið sjálfstæði Reykjalundar fellur vel að þeirri vinnu. Markmið samtakanna er að vinna að viðeigandi forvörnum hverju sinni sem snúa að heilsu og bættu lífi landsmanna. Þá er æskilegt, að mati stjórnar SÍBS, að framtíðarfyrirkomlag Reykjalundar styðji við nýja endurhæfingarstefnu stjórnvalda sem líta mun dagsins ljós á vormánuðum,“ segir í tilkynningunni.

Þar er Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sömuleiðis þakkað „fyrir þann skilning sem hún hefur sýnt framkomnu erindi samtakanna.“

Reykjalundur
Reykjalundur mbl.is/Eggert
mbl.is