Halda ekki svartan föstudag

Verslunin Vistvera er staðsett í Grímsbæ við Bústaðaveg.
Verslunin Vistvera er staðsett í Grímsbæ við Bústaðaveg. Ljósmynd/Aðsend

„Við jarðarbúar þurfum að minnka neyslu og sérstaklega Vesturlandabúar. Okkur langar alls ekki til að hvetja fólk til að kaupa og kaupa hluti sem það þarf ekki á að halda, heldur frekar koma til okkar þegar það nauðsynlega þarf eitthvað,“ segir Kristín Inga Arnardóttir, einn eigenda verslunarinnar Vistveru, þar sem svartur föstudagur svokallaður verður ekki haldinn hátíðlegur.

Kristín Inga segir að tilboðsdagar eins og sá sem er á morgun verði oft til þess að fólk, jafnvel hún sjálf, verði svo æst í að kaupa eitthvað á tilboði að það kaupi eitthvað sem það þurfi ekki á að halda.

Halda vöruverðinu lágu allan ársins hring

„Við viljum frekar reyna að halda vöruverðinu lágu allan ársins hring og ekki vera að hvetja fólk til að kaupa eitthvað sem það notar kannski ekki,“ segir Kristín Inga og bætir því við að eigendurnir fjórir, nágrannakonur úr Fossvoginum, séu allar í annarri vinnu og að rekstur verslunarinnar sé frekar áhugamál, sem gefi þeim jafnframt frelsi til að vera samkvæmar sjálfum sér í álagningu.

Í Vistveru eru seldar ýmsar plastlausar nytjavörur.
Í Vistveru eru seldar ýmsar plastlausar nytjavörur. Ljósmynd/Aðsend

Verslunin Vistvera er staðsett í Grímsbæ við Bústaðaveg og þar eru seldar ýmsar nytjavörur, en hugmyndin að versluninni kviknaði þegar eigendurnir hófu átakið Plastlaus september og voru sífellt að leita nýrra, umhverfisvænna lausna og vildu auka aðgengi að umhverfisvænni vörum á Íslandi.

Kristín Inga viðurkennir að það geti orkað tvímælis að reka verslun og vilja draga úr neyslu. Í Vistveru sé áhersla lögð á að selja umhverfisvænar nytjavörur, sem fólk þurfi raunverulega á að halda.

mbl.is