Íslendingur sagður hafa stungið mann á Strikinu

Árásin átti sér stað á Strikinu í Kaupmannahöfn.
Árásin átti sér stað á Strikinu í Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Íslenskur maður er sagður hafa stungið mann í hálsinn fyrir utan bar á Strikinu í miðborg Kaupmannahafnar síðasta laugardagskvöld. Fjallað var um málið á vef Ekstra Bladet það sama kvöld, en DV vakti athygli á málinu fyrst íslenskra miðla í dag.

Maðurinn, sem sjónarvottur segir að hafi verið stórvaxinn og húðflúraður Íslendingur, var handtekinn á hamborgarastaðnum Burger King á Ráðhústorginu, nokkur hundruð metra frá árásarstaðnum. Hnífstungan mun hafa átt sér stað í slagsmálum hins meinta Íslendings við annan mann.

Leif Hansen, varðstjóri hjá lögreglu, segir að maðurinn hafi verið að losa sig við hnífinn í ruslatunnu inni á hamborgarastaðnum er lögregla hafði hendur í hári hans.

Vitni að árásinni eltu manninn frá árásarstaðnum og sögðu lögreglunni símleiðis hvar hann væri staddur. Samkvæmt frétt Ekstra Bladet tóku um það bil 20 lögregluþjónar þátt í handtökunni.

Fórnarlamb hnífstungunnar var ekki í lífshættu eftir árásina, að sögn lögreglu, en var flutt til aðhlynningar á Ríkisspítalann.

Uppfært: Á fréttavef RÚV kemur fram að talið sé að árásarmaðurinn hafi verið Hollendingur en ekki Íslendingur og það haft eftir blaðamanni Ekstra Bladet, sem skrifaður er fyrir fréttinni af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert