Í snarvitlausu veðri að hjálpa fólki

Björgunarsveitarmaður í brjáluðu veðri á Suðurstrandavegi.
Björgunarsveitarmaður í brjáluðu veðri á Suðurstrandavegi. Mynd/Skjáskot

Mannskapur frá björgunarsveitinni Þorbirni er staddur á Suðurstrandarvegi í snarvitlausu veðri við að bjarga fólki sem situr fast í bílunum sínum.

Búið er að loka veginum, að því er segir á facebooksíðu björgunarsveitarinnar.

Uppfært kl. 22.58:

Að sögn Otta Rafns Sigmarssonar hjá björgunarsveitinni Þorbirni var um að ræða tvo bíla á leið frá Þorlákshöfn til Grindavíkur en ferðafólkið hefur verið flutt til Grindavíkur heilt á húfi. 

„Þau þorðu ekki lengra. Þau gjörsamlega frusu enda skyggnið ekkert,“ segir Otti Rafn.

Björgunarsveitin var rúman klukkutíma að keyra innan við 30 kílómetra til fólksins vegna þess að skyggnið náði ekki fram fyrir húdd, eins og hann orðar það.

Bílar fólksins voru byrjaðir að fjúka út í vegakant í hálkunni þegar það ákvað að halda kyrru fyrir og reyna að bíða af sér veðrið. Þegar veðrið versnaði gafst það upp á biðinni og hringdi í neyðarlínuna.

Biðu í þrjá til fjóra tíma

Þegar Otti Rafn og félagar mættu á staðinn hafði fólkið beðið í þrjár til fjórar klukkustundir í bílunum sínum. Annar bíllinn var jepplingur og hinn fjórhjóladrifinn fólksbíll.

Fyrst hélt björgunarsveitin að það þyrfti að aðstoða einn bíl til viðbótar en hann gat elt snjóruðningstæki.

Otti Rafn segir daginn hafa gengið ágætlega en verkefnin hafi verið mörg. „Það er óvenjulegt að vera bæði í ófærðarútköllum og óveðursútköllum á sama tíma, það er ekki venjulegt. Bæði að negla þakplötur og skrúfa fyrir glugga og sinna einhverjum sem er fastur í snjó.“

Verkefnin tóku að hrannast upp eftir kvöldmatarleytið og eru þau enn að tínast inn enda er veðrið ekkert að skána.

Mikill viðbúnaður við Víkurbraut 

Einnig eru björgunarsveitarmenn að sinna brotnum rúðum og fleiru sem er að fjúka í Grindavík.

Lögreglan á Suðurnesjum er jafnframt með mikinn viðbúnað við Víkurbraut og hafnarsvæðið í Keflavík vegna foks.

Þar er einnig búið að loka fyrir alla umferð og er fólk beðið að virða lokanir.

„Mikið er um lausa muni sem fjúka þarna og geta valdið miklum skemmdum á ökutækjum og slasað fólk verði það fyrir fjúkandi hlutum,“ segir lögreglan.

mbl.is