Jólakötturinn bundinn niður og Óslóartréð fellt

Búið er að staga jólaköttinn á Lækjartorgi vandlega niður.
Búið er að staga jólaköttinn á Lækjartorgi vandlega niður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa staðið í ströngu frá því í gær við að tryggja að sem minnst foktjón verði af völdum aftakaveðurs sem gengur yfir landið í dag og á morgun. 

„Það þarf að tryggja að hlutirnir fjúki ekki, þar á meðal kisinn okkar á Lækjartorgi. Ekki síst vegna þess að spár gera ráð fyrir því að þetta verði verst í miðborginni og í vesturhluta borgarinnar,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is. 

Í morgun var jólakötturinn á Lækjartorgi bundinn við steypuklump líkt og sjá má á myndskeiði sem Stundin birti. Þá hafa stóru jólabjöllurnar sem skreyta götur miðborgarinnar verið teknar niður sem og Óslóartréð sem mun liggja af sér storminn.  

Um fyrirbyggjandi aðgerðir er að ræða, ekki síst þar sem Óslóartréð brotnaði í óveðri um svipað leyti fyrir fjórum árum. 

Teymi frá hverfastöð við Fiskislóð verður á vakt fram eftir degi og verður til taks ef eigur borgarinnar liggja undir skemmdum. 

Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa fellt niður Óslóartréð vegna veðursins sem spáð …
Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa fellt niður Óslóartréð vegna veðursins sem spáð er í dag og á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefnir í eitt versta óveður á landinu á síðari árum

Búist er við því að veður taki að versna á höfuðborgarsvæðinu síðdegis. Veðurspár virðast ætla að ganga eftir og stefnir í eitt versta óveður á landinu á síðari árum, að því er segir í ábendingu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Appelsínugul viðvörun er í gildi á öllu landinu nema á Ströndum og norðurlandi vestra þar sem rauð viðvörun er í gildi. 

Bjarni segir að frekar fámennt sé á starfstöðvum borgarinnar þennan morguninn. „Fólk var hvatt til að vinna frekar heima.“ Reykjavíkurborg hefur beðið foreldra og for­ráðamenn barna að sækja börn sína strax að skóla­degi lokn­um á morg­un svo að all­ir, börn, for­eldr­ar og starfs­fólk skóla og leik­skóla, geti verið komn­ir til síns heima áður en óveðrið skell­ur á klukk­an 15.

Óslóartréð við Austurvöll var tendrað fyrsta sunnudag í aðventu en …
Óslóartréð við Austurvöll var tendrað fyrsta sunnudag í aðventu en hefur nú verið tekið niður vegna óveðursins sem mun ganga yfir í dag og á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is