780 björgunarsveitarmenn í 760 verkefni

Björgunarsveitarmenn að störfum í rokinu í gær.
Björgunarsveitarmenn að störfum í rokinu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir höfðu um fimmleytið í dag sinnt 760 verkefnum tengdum aðstoðarbeiðnum á þeim rúma sólarhring sem er liðinn síðan óveðrið byrjaði að ganga yfir landið. Alls hafa 780 björgunarsveitarmenn staðið vaktina á einn eða annan hátt á þessum tíma.

Þetta segir Davíð Már Bjarnason hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Jeppi björgunarsveitar Húsavíkur.
Jeppi björgunarsveitar Húsavíkur. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Mættir norður á breyttum jeppum 

Björgunarsveitarmenn eru komnir norður í land á sex breyttum fólksbílum til að aðstoða fólk sem hefur lent í vandræðum vegna óveðursins. Fara þeir meðal annars um Hrútafjörðinn og Skagafjörðinn. „Þarna þarf meiri mannskap því verkefnin eru flest þarna,“ segir Davíð Már og bætir við að þeir björgunarsveitarmenn sem fyrir eru á svæðinu þurfi einnig hvíld eftir að langa og stranga vakt.

Ekki var talin þörf á að senda bíla austur á land þar sem veðrið hefur verið betra en óttast var. Eftir hádegi hefur fækkað nýjum beiðnum um aðstoð vegna foks eða veðurtengdra mála víða um land. Davíð Már bætir við að Vestfirðir og Vesturland hafi sloppið best úr óveðrinu.

Mikið hefur snjóað á Siglufirði í dag og í gær. …
Mikið hefur snjóað á Siglufirði í dag og í gær. Unnið var að því að moka götur bæjarins í dag. Ljósmynd/Mikael Sigurðsson

Koma bændum til aðstoðar

Hann segir margt fólk úr björgunarsveitum, ásamt fólki meðal annars frá veitufyrirtækjum, að störfum, sérstaklega á Norðurlandi. „Verkefnin snúast í dag meira um að sinna fólkinu, til dæmis bændum sem eru afskekktir inni í dölum og vantar birgðir eða eru rafmagns- eða fjarskiptalausir.“

Einnig hafa björgunarsveitir aðstoðað við að ferja rafstöðvar á staði til að koma þar á varaafli.

Davíð Már hvetur fólk til að halda áfram frábæru samstarfi sínu við viðbragðsaðila og segir að viðbrögð almennings við viðvörunum hafi verið til mikillar fyrirmyndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert