Verktakar fá skjól í fjöldahjálparmiðstöð

Kristinn Kristinsson, verkstjóri hjá Munck, í fjöldahjálparmiðstöðinni.
Kristinn Kristinsson, verkstjóri hjá Munck, í fjöldahjálparmiðstöðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fimmta tug starfsmanna verktakafyrirtækisins Munck mun dvelja í fjöldahjálparmiðstöðinni í grunnskólanum á Dalvík í nótt. Kristinn Kristinsson verkstjóri er einn þeirra. Hann segir að starfsmennirnir vinni allir við að reisa fiskverksmiðju niðri á bryggju og hafi haldið þar til í vinnubúðum sem séu kyntar með rafmagni.

„Við erum búnir að vera straumlausir síðan klukkan átta á þriðjudagsmorgun,“ segir Kristinn og viðurkennir að það hafi verið kærkomið að komast inn í hlýjuna. Vinnubúðir Munck eru við bryggjuna, en Kristinn segir að mesta furða sé hve vel þær sluppu úr óveðrinu. „Það var mjög mikill sjógangur þarna og sjórinn kominn vel yfir kantinn á tímabili.“

Nóttin ætti að vera sú síðasta í fjöldahjálparmiðstöðinni, en Kristinn segir að starfsmennirnir hafi nú orðið sér úti um rafstöðvar sem þeir muni nota til að koma hita og rafmagni á búðirnar.

Ekki þörf fyrir búðir í Fjallabyggð

Auk fjöldahjálparstöðvarinnar á Dalvík heldur Rauði krossinn úti sérstakri hvíldarstöð í Glerárkirkju á Akureyri, en hún er ætluð björgunarsveitarmönnum sem þurfa að hvílast. 

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir að fyrr í dag hafi fjöldahjálparmiðstöðvar verið opnaðar á Ólafsfirði og Siglufirði, en ekki hafi reynst þörf fyrir að hafa þær opnar lengur. Um 90 manns komu í miðstöðina á Ólafsfirði en enginn á Siglufirði enda rafmagn komið á í báðum bæjum. Hún bætir þó við að Rauði krossinn sé í viðbragðsstöðu og muni opna þær aftur ef þörf krefur.

Þá verður fjöldahjálparstöðin í félagsheimilinu Sólvangi á Tjörnesi lokuð í nótt, en gestir hennar, sem munu hafa verið þrír, hafa fengið næturgistingu annars staðar.

mbl.is